Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

Sundabraut og samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

768. mál
[18:18]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Forseti. Sundabraut er stórt og mikilvægt verkefni og þjóðhagslega arðbært verkefni, örugglega ein arðsamasta samgönguframkvæmd ef ekki sú arðsamasta sem hægt er að fara í hér á landi. Það hefur komið fram í könnun sem hefur verið unnin á verkefninu. Mín skoðun er sú að væntanlega sé hér um stærra og mikilvægara verkefni að ræða en samgöngusáttmálann og borgarlínu í stóra heildarsamhenginu og líka út frá arðsemi. Mig langaði bara rétt að koma inn á eitt í þessari umræðu: Hefur vegstæði Sundabrautarinnar verið varið nægilega vel á undanförnum árum í öllu þessu skipulagsferli? Það hefur stöðugt verið sótt á vegstæðið. Þar vil ég helst nefna, eins og við sjáum sem höfum farið og kynnt okkur aðstæður uppi í Gufunesi, að þar fer byggðin upp að vegstæðinu og fer jafnvel inn á fyrirhugað vegstæði. Ég vildi rétt koma þessu að.