Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

lækkun tolla og gjalda á innfluttar matvörur.

187. mál
[18:56]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er nánast tilefni til að halda hátíð að við skulum loksins ná saman, ég og hv. þingmaður, til að ræða þessa fyrirspurn sem hefur legið hér inni óþægilega lengi og ég tek undir það sem hv. þingmaður segir að það hefur átt sér sínar skýringar. Hins vegar er þetta ein af þessum fyrirspurnum sem eldist vel vegna þess að tilefnið er enn þá til staðar og enn þá fyrir hendi. Kannski í fyrsta lagi, vegna þess að hér er ég spurð sem ráðherra landbúnaðarmála með beinum hætti um það með hvaða hætti ég muni kappkosta að breyta reglum um tolla á úthlutun o.s.frv., þá þarf það að liggja algjörlega fyrir að ráðherra landbúnaðarmála hefur ekki vald til að lækka einhliða tolla og gjöld á innfluttar matvörur enda telst álagning tolla til skattlagningar og er því ákveðin með lögum í samræmi við lagaáskilnaðarkröfur stjórnarskrárinnar. Það er þó rétt að geta þess að tollar á innfluttar matvörur eru tiltölulega litlir hér í alþjóðlegum samanburði, t.d. miðað við EFTA-löndin, bara þannig að við komum okkur á þann grunn. Það er fjallað um álagningu tolla í tollalögum en ákveðnir tollkvótar tilheyra mínu ráðuneyti sem nánar er kveðið á um í búvörulögum.

Fyrirkomulaginu við úthlutun tollkvóta var breytt með lögum sem voru samþykkt á Alþingi í desember 2019. Það frumvarp byggði á tillögum starfshóps sem var falið að endurskoða fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta og finna leiðir til að koma ávinningi sem skapast með þeim takmörkuðu gæðum í meira mæli til neytenda. Það var markmiðið með lagasetningunni. Með lögunum var í raun og veru gerð grundvallarbreyting við úthlutun á tollkvóta með innleiðingu á svokölluðu jafnvægisútboði og breytingin hefur í för með sér að lægsta samþykkta verð útboðs ákvarðar verð tollkvótans en með þeim breytingum var stefnt að því að skila auknum ábata til neytenda. Vegna heimsfaraldurs var ákveðið árið 2020 að breyta aftur til fyrra fyrirkomulags tímabundið með það að markmiði að lágmarka áhrif faraldursins á innlenda framleiðslu en sú tímabundna ráðstöfun er fallin úr gildi. Það má því segja að það reyni í raun og veru á þessa lagasetningu frá 2019 þar sem jafnvægisútboðið hefur verið tekið upp að nýju. Það er ekki mikil reynsla komin á þessa breytingu og svo kemur til viðbótar að ástand á matvælamörkuðum hefur verið afar óvenjulegt síðustu misseri. Þannig að það er áætlað að áhrif þess verði að ávinningur skili sér í auknum mæli til neytenda í formi verðsamkeppni og aukins vöruúrvals án þess að raska starfsumhverfi innlendrar framleiðslu sem nýtur auðvitað ákveðinnar verndar eins og hér er til umræðu. Það skiptir því máli að þetta breytta fyrirkomulag nái að sýna hvað í því býr ef svo má að orði komast.

Við vitum hvert markmiðið með tollverndinni er, þ.e. að skapa skilyrði fyrir framleiðslu tiltekinna tegunda matvæla hér á landi, en það er mikilvægt að skoða það við þessar kringumstæður sem núna eru uppi; orkukrísa í Evrópu, hækkun á matvöru í Evrópusambandinu o.s.frv. Það má sjá af gögnum Hagstofu Evrópusambandsins að svínakjöt hækkaði um 18,4% á síðasta ári í Evrópusambandinu að meðaltali en 12% á Íslandi, kjúklingakjöt hækkaði um 23,5% í Evrópusambandinu en 14,6% á Íslandi, drykkjarmjólk um 31% í Evrópusambandinu en um 8% hér á landi. Ég er ekki að nefna þessar tölur til að sýna fram á að við höfum núna algerlega sambærilegar tölur í einhvers konar stöðugleikaumhverfi heldur til að sýna fram á hvað þessar forsendur geta verið breytilegar í heimsfaraldri, í stríðsástandi o.s.frv. Það eru ótvíræðir hagsmunir að skapa skilyrði fyrir öfluga matvælaframleiðslu á Íslandi og sérstaklega á tímum sem þessum, þ.e. að við leggjum mikla áherslu á fæðuöryggi með innlendri öflugri matvælaframleiðslu, sem ég hef mjög mikla trú á eins og ég veit að hv. fyrirspyrjandi hefur líka, en það þarf alltaf að meta með hvaða hætti við sköpum þessi skilyrði og hvort hægt sé að gera betur. Þá er mikilvægt að sýna aðhald og horfa til hagsmuna neytenda á hverju stigi og ég vil árétta það hér í þessari umræðu allri að það eru ekki andstæð sjónarmið að standa með innlendum landbúnaði og vera meðvitaður um mikilvægi alþjóðaviðskipta í opnum samfélögum.