Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

lækkun tolla og gjalda á innfluttar matvörur.

187. mál
[19:04]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra. Við eigum að standa með bændum en við gerum það að mínu mati ekki með því að halda þeim áfram í höftum og viðjum. Við eigum miklu frekar að losa þá úr viðjunum. Það skiptir líka máli að við segjum að með því að standa með bændum þá séum við líka að standa með neytendum. Þetta eru ekki andstæður eins og hæstv. ráðherra kom réttilega inn á.

En ég spyr: Af hverju er ávinningurinn af tollkvótunum, sem á m.a. að vera ávinningur neytenda, ekki að skila sér til neytenda? Þetta þarf ekki að vera svona. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Af hverju er það til að mynda ekki skoðað að afurðastöðvum búvöru og vinnslu sé ekki heimilt að bjóða í tollkvótana? Við vitum af fenginni reynslu og sjáum hverjir eru að bjóða í þetta. Það eru þeir sem hafa hag af því að halda síðan tollkvótunum til hliðar eða þá að þetta er búið að hækka það mikið að það fer beint út í verðlagið. Þetta er eitthvað sem hægt er að gera.

Ég skil alveg svör hæstv. ráðherra með að fjármálaráðherra sé með tollana en hæstv. fjármálaráðherra kom hér upp um daginn í andsvörum við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson þar sem hann sagðist vera tilbúinn til þess að lækka og breyta tollafyrirkomulaginu líkt og gert var í grænmetinu gegn því að fara þá á móti í beina styrki við bændur. Ég styð það, enda sáum við hvað aukið frelsi á markaði gerði fyrir íslenskan grænmetismarkað, fyrir íslenska grænmetisbændur, veitti þeim meiri og staðfastari grunn til að reka sín mikilvægu bú en um leið þá ýtti það undir betra verð og meira úrval til neytenda. Það er greinilega vilji einhverra innan ríkisstjórnar sem ég vona að hæstv. ráðherra virki. Það sem gengur ekki er að hér tali menn, eins og fyrr í dag, út og suður, m.a. ráðherrar Framsóknar sem vilja ekki kannast við neinar lausnir eða leiðir varðandi það hvernig við eigum að vinna gegn verðbólgunni. Það er það sem við megum ekki endalaust horfa upp á, að af því að ráðherrar eru ósammála um leiðirnar þá sé bara ekkert gert, þá séu þeir bara aðgerðalausir, í staðinn verður bara ekkert gert. Hæstv. ráðherra hefur haft fimm mánuði til þess að koma með tillögur um það hvernig hægt er að lækka verðið á matarkörfunni.