Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

aðgangur fatlaðra að rafrænum skilríkjum.

178. mál
[19:12]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þessa mjög svo góðu fyrirspurn og fyrir að taka þetta mál til umræðu hér í málstofu Alþingis. Það er hægt að nota rafræn skilríki á ýmsum vefsvæðum hjá yfir 180 þjónustuveitendum á Íslandi en í þeim hópi eru m.a. ríkisstofnanir, sveitarfélög, bankar og fjármálastofnanir og svo auðvitað einkaaðilar. Aukin notkun rafrænna skilríkja á undanförnum misserum hefur leitt í ljós að fötluðu fólki hafa verið settar skorður í þessu tilliti. Á sama tíma hafa aðrar leiðir sem áður voru til staðar fyrir fatlað fólk ýmist verið afnumdar eða gerðar óaðgengilegar. Þessi vandi einskorðast reyndar ekki eingöngu við aðstæður hjá fötluðu fólki heldur hefur staða eldra fólks einnig verið til umræðu í þessu samhengi. Ég hef lagt á það ríka áherslu að ráða bót á þessum vandamálum í ráðherratíð minni og mig langar að nefna hér nokkur atriði sem stjórnvöld vinna að til að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að notkun rafrænna skilríkja.

Í fyrsta lagi hefur síðastliðið ár verið í smíðum svokallaður talsmannsgrunnur hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og opnaði hann nú í lok október síðastliðins. Um er að ræða umboðsmannagrunn fyrir persónulega talsmenn fatlaðs fólks en persónulegir talsmenn aðstoða fatlað fólk sem á þarf að halda samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Með talsmannagrunninum getur persónulegur talsmaður skráð sig inn með sínum eigin rafrænu skilríkjum fyrir hönd hins fatlaða einstaklings og þannig fær talsmaðurinn aðgang að innskráningu hins fatlaða einstaklings á Mínum síðum á Stafrænu Íslandi og eftir atvikum öðrum síðum þar sem innskráningar er krafist með rafrænum skilríkjum. Þannig er tryggt að þau sem ekki geta notfært sér rafræn skilríki sjálf hafi aðgengi í gegnum sinn persónulega talsmann. Fyrsti notandinn undirritaði samning um aðgang að talsmannsgrunninum í janúar síðastliðnum. En ég tek fram að fyrst um sinn verður aðeins hægt að nálgast pósthólf á island.is og verkefnið fram undan snýr þess vegna að því að hægt verði að tengja talsmannsgrunninn við aðrar stofnanir, banka og fyrirtæki þannig að talsmenn geti notað rafræna þjónustu fyrir hönd skjólstæðinga sinna. Það er unnið ötullega að þessum tengingum og ég vonast til þess að við förum að sjá þær detta inn eina af annarri.

Virðulegi forseti. Vinna við talsmannsgrunn felst í því að tryggja aðgengi fyrir öll. Verkefnið er flókið og margir þættir sem þarf að huga að er varða öryggi upplýsinga, verkferla og fleiri atriði og þegar unnið er með viðkvæm gögn er nauðsynlegt að hafa trausta þjónustu sem felur í sér að hægt sé að greina auðkenni einstaklinga á stafrænan máta og þannig þarf að vera öruggt að sá sem skráir sig inn og sækir upplýsingarnar sé sannarlega sá sem hann segist vera. Í stafræna heiminum jafngilda rafræn skilríki því að framvísa persónuskilríkjum og með umboðsmannakerfinu er sá sem framkvæmir aðgerðirnar alltaf rétt innskráður og getur framkvæmt aðgerðir fyrir hönd aðila sem hann hefur umboð fyrir. Þá hefur kerfið enn fremur þann kost að það er hægt að rekja hver hefur umboð fyrir hvern og á hvaða tímabili. Talsmannagrunnurinn á því að tryggja öryggi fatlaðs fólks í stafrænum heimi.

Í öðru lagi stendur fyrir dyrum innleiðing á svokallaðri aðgengistilskipun Evrópusambandsins. Hún setur fram sameiginlegar kröfur um stafrænt aðgengi að tilteknum lykilvörum og -þjónustu sem stuðlar að fullri þátttöku fatlaðra einstaklinga í samfélaginu, svo sem aðgengi að bankaþjónustu, fartölvum, símum, sjónvarpsbúnaði, hljóð- og myndmiðlum, rafbókum, netverslunum og samgöngum. Tilskipunin hefur ekki enn verið tekin upp í EES-samninginn en ráðuneytið á í góðum samskiptum við hin EFTA-ríkin, einkum Noreg, sem einnig er að vinna að því að aðlaga lagaumhverfi sitt að tilskipuninni. Hún er umfangsmikil og ráðuneytið hefur hafið greiningarvinnu á ákvæðum hennar. Hér er um að ræða þverfaglegt verkefni sem krefst samvinnu þvert á ráðuneyti.

Í þriðja lagi vil ég nefna yfirstandandi gerð landsáætlunar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur fullgilt, stofnun mannréttindastofnunar og lögfestingu samningsins. Um miðjan febrúar héldum við vel heppnað samráðsþing sem yfir 300 manns sóttu þar sem drög að fyrstu tillögum verkefnisstjórnar og undirhópa landsáætlunar voru lögð fram. Sú mikilvæga vinna sem fram fer við landsáætlunina er komin á fullt skrið og í henni felst í reynd heildstæð stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks á Íslandi. Skýrar tillögur að aðgerðum og innleiðingu á stafrænu aðgengi voru einmitt hluti tillagna á samráðsþinginu sem verða nánar skilgreindar í landsáætluninni.

Að lokum vil ég nefna að undir formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni nú í ár hafði ég frumkvæði að því að Norðurlöndin myndu leggja ríka áherslu á aukna samvinnu Norðurlandanna í að tryggja að nýjar stafrænar lausnir séu aðgengilegar fötluðu fólki til jafns við aðra en það er mjög mikilvægur þáttur í að stuðla að félagslega sjálfbærum Norðurlöndum. (Forseti hringir.) Verður í þessu skyni m.a. haldin norræn ráðstefna hér á landi í júní næstkomandi.