Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

aðgangur fatlaðra að rafrænum skilríkjum.

178. mál
[19:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég hugsa stundum til þess þegar við þurftum í gamla daga alltaf að gefa upp kennitölu til að leigja vídeóspólu. Algerlega óþarft fullvissustig á því hver væri að taka spóluna, en dálítið lýsandi fyrir það hversu langt Ísland gengur stundum í þessum málum. Hér fór ráðherrann ágætlega yfir það hversu mikil aukning hefur orðið í því að stofnanir og fyrirtæki noti rafræn auðkenni sem ekki bara aðalleiðina heldur einu leiðina að rafrænni þjónustu. Auðvitað kemur það verst niður á hópum sem eiga erfitt með að nýta sér þessa þjónustu, fatlað fólk er hér til umræðu í fyrirspurninni en það er bara bilun, forseti, að við þurfum rafræn skilríki til að skrá okkur í World Class. Stofnunum ber að meta viðkvæmni þeirrar þjónustu sem er veitt og bjóða upp á auðkenningu í samræmi við það og það skal enginn segja mér að allir þessir tugir stofnana sem stóla á rafræn auðkenni séu með það viðkvæma þjónustu að hátt fullvissustig þurfi. (Forseti hringir.) Hvaða mat hefur farið fram á því, veit ráðherra það? Hvernig hefur t.d. verið metið hjá öllum þessum stofnunum hvort þurfi (Forseti hringir.) rafræn auðkenni til þess að nýta þá þjónustu sem þar er, hvort hún sé nógu viðkvæm til að réttlæta þá aðgangshindrun?

(Forseti (DME): Ég minni hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)