Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

aðgangur fatlaðra að rafrænum skilríkjum.

178. mál
[19:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þetta er hið besta mál og ég vona svo heitt og innilega að það verði bara drifið í því að sjá til þess að fatlað fólk geti fengið aðstoð við að komast í sína reikninga. Þetta gildir líka um aldraða einstaklinga vegna þess að við lifum á tækniöld og það er farið að gera kröfur um meiri og meiri tækni sem ekki allir geta nýtt sér og sumir vilja hreinlega ekki nýta sér og það er verið að loka bankaútibúum og þar af leiðandi er mjög erfitt fyrir fólk að ná sér t.d. í peninga. Maður fer að hugsa um öfuga forgangsröðun. Ég var að kvarta undan stafrænum ökuskírteinum sem mér fannst alger tímaskekkja en á sama tíma erum við ekki að redda þessum hópum og eldri borgurum og öryrkjum þannig að þeir geti komist örugglega í sína reikninga.