Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

tekjuskerðingar almannatrygginga.

673. mál
[19:27]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er með fyrirspurn til félags- og vinnumarkaðsráðherra um tekjuskerðingar í almannatryggingakerfinu. Fyrsta spurningin er: Hversu miklar hafa skerðingarnar á tekjuauka öryrkja vegna fjármagnstekna verið á ári hverju síðustu fimm árin? Í öðru lagi: Hvert er skerðingarhlutfall fjármagnstekna vegna laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, annars vegar og laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, hins vegar? Þriðja: Hefur ráðherra athugað hvort draga megi úr skerðingum á fjármagnstekjum öryrkja til að auðvelda öryrkjum að safna fyrir útborgun í eigin húsnæði? Ef svo er, hvenær má búast við tillögu ráðherra í þessum málum og með hvaða hætti? Eða ætlar hann hreinlega að hætta þessum skerðingum? Því mundi ég vilja bæta hérna við.

Þetta eru ein af fáum en samt ein af heimskulegustu skattaskerðingarlögum sem ég hef séð hér á þingi. Ég get ekki skilið hvers vegna í ósköpunum er tekinn út hópur fólks, eins og öryrkja og aldraðra, og þeir einir settir í þá stöðu að þó að þeir séu ekki einu sinni að ávaxta fjármuni sína, ef þeir eru að leggja þá inn í banka og hafa efni á því og hafa aðgang, að það gildi ekki sömu reglur um þá og allan almenning í landinu, að þeir borgi 22% fjármagnstekjuskatt og síðan bara búið. Nei, eftir að þeir eru búnir að fá ákveðið frítekjumark þá er það bara 22% fjármagnstekjuskattur og síðan 65% skerðing. Það skiptir engu máli. Ég spyr mig. Sjálfstæðisflokkurinn t.d., sem er alltaf að tala um skattalækkanir, alltaf að tala um að nú eigum við að lækka skatta, þeir eru að verja þennan ósóma, verja það að einstaklingur sem er í mínus, hann er í mínusávöxtun, það ekki er nóg að hann þurfi að borga 22% fjármagnstekjuskatt þó ávöxtunin sé í mínus heldur þarf líka að borga 65% skerðingar á mínusinn.

Ég spyr hæstv. ráðherra. Þetta er galið. Það hlýtur að vera hægt að breyta þessu og við ættum að gera það strax í dag og ef eitthvað væri þá liggur við að það væri hægt að endurgreiða þessu fólki aftur í tímann. Þetta eru smáfjármunir. Ég hef enga trú á að þetta séu einhverjar rosalegar upphæðir. En þetta setur t.d. öryrkja í vanda. Hvernig í ósköpunum sér ráðherra fyrir sér að öryrki sem er að reyna að spara til íbúðarkaupa í þessari verðbólgu sem er í dag nái nokkurn tímann að spara vegna þess að ríkið ætlar að sjá til þess með þessum ótrúlegu skerðingum, 22% fjármagnstekjuskatti og 65% skerðingu, að hann geti það aldrei? Er ekki kominn tími til að breyta því?