Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

tekjuskerðingar almannatrygginga.

673. mál
[19:36]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og öðrum sem tóku til máls í samhengi við þetta. Ég horfi nú á þessar tölur sem hæstv. ráðherra gaf mér upp, að meðaltali 650 millj. kr. á ári. Þá vaknar sú spurning hversu mikið af þessum 650 milljónum sé í sjálfu sér tap þar sem viðkomandi einstaklingar voru ekki einu sinni að fá sína ávöxtun vegna þess að verðbólgan og vaxtastigið var þannig. Við vitum t.d. að í dag eru mjög lágir innlánsvextir en á sama tíma er verðbólgan um 10% þannig að það segir sig sjálft að þeir sem eru að reyna að ávaxta sitt fé á reikningum með lægstu vöxtum eru í bullandi tapi. Ég get ekki skilið það að á sama tíma eru kannski einstaklingar að fá milljarða í arðgreiðslur og þeir borga bara 22% fjármagnstekjuskatt. Það er mjög ósanngjarnt að horfa bara á þessa einstaklinga sem eru í almannatryggingakerfinu og byggja þetta upp vegna þess að þeir séu að fá borgað frá ríkinu. Þeir eru búnir að ávinna sér þessi réttindi í íslenska almannatryggingakerfinu. Þetta á ekki að vera refsikerfi sem er alltaf tilbúið að refsa fólki fyrir ráðdeild. Þarna er verið að ráðast á sparnað fólks. Ég veit ekki hvort hægt sé að leggjast lægra en að segja við þá verst settu að þeir megi ekki spara vegna þess að þá verði þeim refsað vegna þess að þeir séu að fá fjármuni frá ríkinu. Á sama tíma standa þeir sem eru með milljarðana margfalt betur.