Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

tekjuskerðingar almannatrygginga.

673. mál
[19:39]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessa ágætu umræðu og þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að fá að ræða málefni örorkulífeyrisþega. Ég veit að við erum báðir sammála um að vilja stíga stór skref á þessu kjörtímabili til að bæta kjör þeirra og líka til þess að bæta það kerfi sem við erum með í dag. Ég lýsti því hér áðan, og sá brosin í salnum, hversu undrandi þingmenn væru á því hversu margvísleg þessi skerðingarhlutföll eru. Við getum bætt við það síðan frítekjumörkum sem eru líka mismunandi eftir því um hvers konar tekjur er að ræða. Það er alveg ljóst að þetta er kerfi sem við þurfum í fyrsta lagi að einfalda þannig að við skiljum það betur. Við þurfum að einfalda það til þess að gera það gagnsærra og við þurfum að einfalda það til þess að það verði sanngjarnara. Það er ekki nóg að einfalda það. Það þarf líka að stíga skref sem búa til rétta hvata inn í kerfið, hvata sem hvetja fólk til að reyna að vera að hluta til á vinnumarkaði og að örorkan sé það sem grípur þau sem hafa ekki neitt annað. Þannig sé ég þetta fyrir mér. Hluti af þeirri vegferð er að ráða að hluta til bót á þeim skerðingum sem eru að framkalla ranga hvata til fólks sem er að senda röng skilaboð út í samfélagið. Ég hlakka bara til að koma með þá vinnu hingað inn í þingið til að geta tekið þá umræðu. Ég er sannfærður um að við getum stigið stór og mikilvæg skref á þessu kjörtímabili.