Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

aðgengi fatlaðra stúdenta að háskólanámi.

245. mál
[19:44]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þessa umræðu hingað inn af því að hún er okkur afar mikilvæg. Spurt er hver sé stefna mín og mín stefna er að fleira fólk á Íslandi hafi aukið aðgengi að háskólanámi, hvort sem það er með tilliti til kyns, kynþáttar, fötlunar eða annars bakgrunns og þar þurfum við að gera betur af því að það er alveg ljóst að í dag hafa fatlaðir ekki sömu lyklana að háskólanámi og aðrir. Ég hef bæði viljað auka aðgengi að náminu en líka að þau fái fjölbreyttari leiðir en nú er. Og það er gaman að segja frá því að á föstudaginn síðasta þá undirritaði ég samning við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Listaháskóla Íslands um ákveðna samvinnu um aukið diplómanám á háskólastigi fyrir fólk með þroskahömlun. Með þessum samningi á bæði að undirbúa að fleiri skólar bjóði háskólanám, eins og Háskólinn á Akureyri hefur verið með í undirbúningi, að við reynum að ýta því úr vör, en líka að Listaháskólinn ráðist í ákveðna greiningu á því hvernig þau geta gert slíkt með betri hætti og að Háskóli Íslands hjálpi hinum skólunum við það en skoði líka tækifæri hjá sér á fleiri möguleikum. Markmiðið með þessu er svolítið að ýta úr vör meiri skýrleika gagnvart þessum tækifærum, auka samvinnu og samstarf háskólanna um þetta nám og ekki síst að auka fjölbreytni námsframboðs fyrir ungt fólk með þroskahömlun. Það verður ráðinn verkefnisstjóri til að leiða þetta verkefni og hefur þá starfsskyldu í öllum háskólunum. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni.

Það var auðvitað bent á það af verkefnahópi sem skilaði af sér 2020, í skýrslu um tækifæri ungs fólks með þroskahömlun, að koma yrði á fót námi við Háskólann á Akureyri til að auka aðgengi fatlaðs fólks á landsbyggðinni að slíku námi. Með þessum samningi erum við að reyna að styðja Háskólann á Akureyri til að klára þá vinnu til að geta byrjað það nám og ég bind vonir við að það gerist á næstunni. Síðan er líka þátttaka í starfshópi félags- og vinnumarkaðsráðherra um aukin starfsnáms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk og þær tillögur munu nýtast vel í þeirri vinnu sem háskólarnir eru komnir í. Það að háskólarnir séu komnir núna af stað saman styrkir líka vinnu þess hóps og hvert eigi að leita með þau úrlausnarefni. Síðan er einnig fram undan í háskólamálunum endurskoðun á reiknilíkani um fjármögnun háskóla og í þeirri vinnu þarf líka að taka tillit til stöðu fatlaðra til bætts aðgengis að háskólum og hvernig fjármögnunin kemur inn í það.

Það er auðvitað þannig í lögum um háskóla í dag að háskólum er falið að veita fötluðum nemendum sérfræðilega aðstoð og viðeigandi aðbúnað en eins og hv. þingmaður nefndi þá hefur, vegna baráttu nokkurra einstaklinga, kraftmikilla einstaklinga í samfélagi okkar eins og Láru Þorsteinsdóttur, háskólinn veitt aðgang að ákveðnum greinum þar sem áhuginn liggur og það er ótrúlega mikilvægt að slíkar opnanir, ef svo má segja, eða slík tækifæri, fylgi þessari vinnu sem háskólarnir fara í saman. Mér þykir þetta vera skref í rétta átt. Nú er kominn skýr rammi, skýr verkefni sem ráðist verður í af háskólunum þremur og það mun vonandi leiða af sér bæði fjölbreyttara nám fyrir fatlaða, aukið aðgengi fatlaðra á landsbyggðinni að háskólanámi og nýjar leiðir með aðkomu Listaháskólans að þessari vinnu.