Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

aðgengi fatlaðra stúdenta að háskólanámi.

245. mál
[19:51]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og tek undir það að oft höfum við ákveðna skýra sýn varðandi þennan hóp eða ákveðinn vilja sem sýnir sig í skýrslum og ýmsu sem hefur verið unnið en við höfum ekki séð það koma til framkvæmda. Þess vegna ákvað ég að forma þetta með þessum hætti en ekki síst það líka, sem var sett inn í samninginn við skólana þrjá, að það væri samráð á milli háskólanna og ungs fólks með þroskahömlun um væntingar til þessa náms, bæði hvernig það hefur verið en líka hvað við getum gert betur og hvernig við getum gert sem mest til þess að það sé inngildandi, það sé í boði eins og þau hafa væntingar til. Ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr þessari vinnu og tek hvatningu hv. þingmanns um að fylgja þessu vel eftir, enda er eiginlega ekki annað hægt af því að við erum að vinna líka að þessu breytta reiknilíkani, sem er einmitt kannski aldrei horft til varðandi hvata eða stuðning við háskólana. Það hefur verið lofað að breyta því gríðarlega lengi. Það er frá 1999. Það er hægt að horfa til annarra landa, sjá hvernig þau styðja við ákveðna hópa, hvernig þau styðja við hvata innan háskólakerfisins og annað með fjármögnun. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að fjármögnunin komi með. Hvatar og samstarf á milli skólanna er af hinu góða af því að ef þeir vinna saman að þessu þá gætum við séð mun fjölbreyttari og meiri tækifæri fyrir fatlaða nemendur á Íslandi. Ég mun halda þessari vinnu áfram en líka í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðherra varðandi stærri heildarmynd og fleiri menntastig.