Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[14:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég hef alltaf verið talsmaður þess að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni en við verðum líka að horfa aðeins í það að þessi málaflokkur sem lýtur sérstaklega að hælisleitendum og innflytjendum hefur vaxið alveg gríðarlega á skömmum tíma og kostnaðurinn eftir því. Eins og hæstv. ráðherra sagði hefur umfangið aukist mikið. Þess vegna verðum við að leita allra leiða, að mínum dómi, til þess að reyna að draga úr þessum kostnaði. Það eru engin teikn á lofti um að sá kostnaður sé að minnka, þvert á móti, eins og ég sagði í mínu fyrra andsvari, þá fjölgar hér stöðugt umsóknum um alþjóðlega vernd og þetta er að verða verulega íþyngjandi fyrir húsnæðismarkaðinn sem er nánast sprunginn og fyrir ríkissjóð. Þegar upphæðin er komin í 10 milljarða á ári þá sjá allir að þetta er að verða íþyngjandi fyrir ríkissjóð. Þess vegna, að mínum dómi, þarf að leita allra leiða til þess að draga úr þessum kostnaði og ég hefði viljað sjá það að hæstv. ráðherra væri hér að flytja okkur fréttir um það að þessi sameining, þessi samlegðaráhrif, hefði í för með sér sparnað. Ég tek vissulega undir það með hæstv. ráðherra að það er gott að starfsemin er komin á einn stað, það er alltaf gott að einfalda hlutina, og að þeir sem þurfa að sækja sér þessa þjónustu leiti á einn stað. Ég dreg ekki úr mikilvægi Vinnumálastofnunar, sérstaklega hvað varðar vinnumarkaðinn og úrræði og annað slíkt þegar atvinnuleysi ber á góma (Forseti hringir.) og er orðið íþyngjandi, þá er þetta afar mikilvægt stofnun, en ég hefði viljað fá hér fréttir um sparnað vegna þess að það er afar mikilvægt í mínum huga þegar kemur að þessum málaflokki, hælisleitendur og útlendingar.