Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

118. mál
[15:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætis andsvar. Ég svo sem geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður hafi kynnt sér sólarorkuna sérstaklega. Ég nefndi þetta bara í þessu samhengi vegna þess að þarna er líka önnur leið til þess að vera með smá rafmagnsframleiðslu sem getur skipt okkur máli og er umhverfisvæn, umfram allt umhverfisvæn.

Það sem mig langaði aðeins að koma inn á í síðara andsvari er að mér finnst mjög gott hvernig lögð er áhersla á mikilvægi smávirkjana í þessari tillögu og að einfalda allt ferlið í þeim. Það hefur því miður ekki verið raunin og þess eru dæmi, bara nýleg dæmi, að smávirkjanir, eins og t.d. í Hverfisfljóti í Skaftárhreppi, undir 10 mW, þar var framkvæmdaleyfinu hafnað. Ég þekki það mál aðeins, hef aðeins kynnt mér það. Eftir margra ára vandaða undirbúningsvinnu ákvað kærunefnd að synja þessu framkvæmdaleyfi, sem vekur mann til umhugsunar um hver sé hinn raunverulegi áhugi fyrir því að virkja með smávirkjunum þegar við horfum síðan fram á að það er verið að kæra og að ákveðnum hópi fólks sé mjög í nöp við slíkar virkjanir þó að litlar séu. Þetta er kannski ekki eiginleg fyrirspurn til hv. þingmanns heldur bara vangaveltur um það (Forseti hringir.) hvert hið samfélagslega viðhorf er gagnvart smávirkjunum. Maður hefði haldið að það væri jákvætt en dæmin hafa reyndar sýnt annað eins og ég nefndi.