Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

áfengislög.

135. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta var áður lagt fram á 152. löggjafarþingi og er nú endurflutt nær óbreytt. Með frumvarpi þessu er lagt til að 2. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 6. gr. a áfengislaga falli brott en samkvæmt ákvæðunum skulu áfengisútsölustaðir vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst. Af ákvæðunum leiðir að áfengisútsölustöðum er óheimilt að hafa opið á sunnudögum og öðrum tilgreindum dagsetningum. Slíkt bann við opnunartíma staða sem selja áfengi og sölu frá framleiðslustað samræmist ekki tíðaranda samfélagsins. Breytingin sem lögð er til með frumvarpi þessu stuðlar að frelsi til að veita og sækja þjónustu á framangreindum dögum. Með tilkomu nýrra áfengisverslana, sérstaklega netverslana, er talið að veita þurfi áfengisútsölustöðum rýmri heimildir til að bregðast við tilkomu nýrra verslunarhátta. Frumvarp þetta gerir t.d. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins auðveldara að opna dyr sínar fyrir neytendum þegar þeim hentar best.

Að mati flutningsmanna er eðlilegt að áfengisútsölustaðir hafi rétt til að ákveða opnunartíma án þess að það sé skilyrt í lögum. Breytingin sem lögð er til með frumvarpi þessu felur einungis í sér að heimilt verður að hafa áfengisútsölustaði á fyrrgreindum dagsetningum opna, ekki er þó um skyldu að ræða. Það er talið vera í samræmi við sambærilegar reglur annars staðar á Norðurlöndunum. Opnunartími ríkisrekinna áfengisverslana á Norðurlöndunum er almennt ákveðinn með öðrum hætti en lagasetningu. Stjórnir, reglugerðir og ákvarðanir ráðuneyta ráða för við slíka ákvarðanatöku. Slíkt veitir þeim verslunum rýmra frelsi til að ráða sínum opnunartíma og breyta honum ef ástæða er talin vera til þess. Sem dæmi má nefna að í Svíþjóð er opnunartími hjá Systembolaget ákveðinn af stjórn félagsins og í Finnlandi er opnunartími Alko ákveðinn með reglugerð ráðherra.

Opnunarbann áfengisútsölustaða á þessum dagsetningum kann að leiða til þess að einstaklingar leiti annarra leiða til að nálgast vörurnar á þeim tíma. Þær leiðir geta m.a. verið áfengiskaup af aðilum sem framleiða og selja áfengi án tilskilinna leyfa og í bága við lög og reglur, en ákveðin áhætta getur falist í vörum sem keyptar eru á þann hátt þar sem þær eru ekki framleiddar í samræmi við reglur og viðurkennda staðla. Einnig eru slíkar vörur almennt sterkari, þ.e. innihalda meira magn af vínanda, og geta verið skaðlegar heilsu fólks. Að mati flutningsmanna er frumvarpið til þess fallið að áfengi verði áfram selt í öruggu umhverfi þar sem eftirlit er með aldurstakmörkum og stuðlað að forvörnum. Þá telja flutningsmenn að mikilvægt sé að blása til stórsóknar í forvörnum meðal annars með því að auka það fjármagn sem eyrnamerkt er forvörnum og setja upp áætlun sem endurmetin verði með reglubundnum hætti. Meginefni frumvarpsins snýr að því að auka þjónustu við neytendur og að enn sé viðhaft tilgreint eftirlit með sölu áfengis.

Þetta frumvarp er til þess fallið að auka þjónustu við neytendur. Markmið þess er að auka þjónustu í öruggu umhverfi þar sem eftirlit er viðhaft, líkt og fram hefur komið, og lýðheilsusjónarmið ráða för. Vínbúðin sýnir þá samfélagslegu ábyrgð sem henni ber og tekur þátt í mikilvægu forvarnastarfi. Það er vel hægt að auka þjónustu til neytenda, til að mynda með því að opna vínbúðir á sunnudögum, án þess að gefa áfengisverslun frjálsa.

Virðulegur forseti. Líkt og ég kom inn á þá höfum við rekið ríkisútsölu á áfengi líkt og í Svíþjóð, Finnlandi og fleiri löndum, meðan frjálsara er um söluna í Danmörku og Noregi. Það er ekki að ástæðulausu að við viljum halda sölunni í stýrðu umhverfi, sérstaklega þegar við horfum til lýðheilsusjónarmiða. Reynslan hefur sýnt okkur að það reynist vel, ekki eingöngu hér á landi heldur einnig í Svíþjóð. Þar var fýsileiki þess að gera áfengissölu frjálsa skoðaður og niðurstaðan reyndist sú að gallarnir við fyrirkomulagið vógu þyngra en kostirnir. Það var því ákveðið að halda núverandi fyrirkomulagi í höndum ríkisins þar sem aðgengi er stýrt á traustan hátt í samræmi við lög og reglur, en það er það sem við viljum; að hafa aðgengi og geta verslað áfengi í því örugga umhverfi sem sérverslun hefur upp á að bjóða.

Með því að rýmka opnunartíma erum við að auka þjónustu verslana, aðlaga okkur að breyttum tíðaranda og verslunarhegðun og á sama tíma erum við að koma til móts við frjálslyndari sjónarmið, án þess þó að galopna allt upp á gátt og gefa sölu áfengis frjálsa með ófyrirséðum afleiðingum.

Fyrrum dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp haustið 2020 sem m.a. kvað á um það að gefa undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi í smásölu til neytenda og heimila netverslun á áfengi í smásölu. Frumvarpið var ekki samþykkt af ríkisstjórn og var því lagt fram að nýju að framangreindu ákvæði frátöldu. Augljóst er að það er ekki pólitískur vilji til að stíga það skref til fulls og því er hér komin fram málamiðlun sem flestir ættu að geta fellt sig við.

Frumvarpið er lagt fram með það að markmiði að vera tilraun til sáttar milli öfgapóla, svo við þurfum ekki ítrekað að takast á um sömu sjónarmiðin, en hér er komið fram nýtt sjónarmið sem flestir ættu að geta fellt sig við eins og áður hefur verið sagt.

Verði frumvarpið að lögum þurfum við ekki að fylgjast með boðberum hinnar fullkomnu frjálshyggju galopna áform sín um vín í matvöruverslanir, því enn er ljóst að það er ekki sátt um þá nálgun í samfélaginu. Það verður að huga að lýðheilsusjónarmiðum þegar við tökum þessa umræðu og aukið aðgengi og minna eftirlit er líklegra til að auka neyslu áfengis og vísa ég þar í rannsóknir sem framkvæmdar voru í Svíþjóð. Þær voru nokkuð skýrar.

Þá má einnig færa sterk rök fyrir því að betri bragur sé á að hafa þetta í sérverslun þar sem fólk þarf að gera sér ferð í búð til að versla áfengi, þó að það væri ekki nema bara af tillitssemi við fólk sem á við áfengisvanda að stríða og er í baráttu við það og þarf ekki að vera freistað í hvert sinn sem það fer í matvöruverslun. Það eru að mínu mati sjálfsögð mannréttindi að geta farið óáreittur um samfélag og geta valið sjálfur að fara í sérverslun sem selur áfengi, og að við búum til kerfi í kringum áfengisverslun á Íslandi sem leggur áherslu á öflugar forvarnir og lýðheilsu. Slíkt gerum við með ábyrgum hætti í gegnum núverandi fyrirkomulag. Þar að auki höldum við uppi heilbrigðri endurnýjun og styðjum við lítil brugghús hér á landi með því að hafa þetta í höndum ríkisins, sem ber að tryggja heilbrigða samkeppni allra sem kjósa að koma vörum sínum á markað hér á landi. Þannig tryggjum við íslenska framleiðslu og okkur í Framsókn leiðist það ekki. Vöðum ekki í villu og svíma í frjálshyggjuumræðunni, aukum þjónustu undir tryggu eftirliti og sameinumst um þessa raunhæfu og skynsamlegu lausn sem mætir ólíkum hagsmunum.