Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

áfengislög.

135. mál
[16:31]
Horfa

Flm. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka seinna andsvarið og mér finnst þessi orðræða um frelsi mjög athyglisverð því að við sem erum á þessum vettvangi þurfum að átta okkur á því að frelsi fylgir ábyrgð og við þurfum að stíga ábyrg skref í áttina að einhvers konar frelsi. Við getum ekki gert það án þess að það sé einhver skoðun á bak við það. Eins og ég sagði áðan í mínu fyrra andsvari þá er ég bara ekki sannfærð um að þetta sé rétta nálgunin í þá átt að öðlast einhvers konar frelsi með ábyrgð þegar kemur að þessu. Einhvern tímann mun kannski skoðun mín vera önnur en á þessum tímapunkti er ég að leggja þetta fram í þeirri viðleitni að koma til móts við ákveðin sjónarmið en ég er ekki alveg tilbúin að setja áfengi í matvöruverslanir. Netverslanir með áfengi, það er eitthvað sem ég er alveg opin fyrir en ég get ekki talað fyrir restina af mínum meðflutningsmönnum á þessu frumvarpi. Ég get bara tjáð mína skoðun hvað varðar spurninguna um netverslun með áfengi. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu ef það er enn þá gert í þessu örugga og ábyrga umhverfi. En svo finnst mér líka að við þurfum að horfa til þessa: Fyrirtækin sem eru í einkasölu með áfengi, án þess að það sé ríkið sem er með hattinn, erum við að tala um að þau séu hagnaðardrifin og er það endilega gott fyrir neytendur?