Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

áfengislög.

135. mál
[16:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Bara örstutt inn í þessa umræðu. Mér finnst einmitt allar þessar litlu opnanir, allt þetta litla svigrúm sem hefur verið veitt af mikilli miskunn frá ríkisvaldinu út í gegnum vínbúðirnar, mér finnst einmitt fólkið hafa svarað þessu með ábyrgð. Þetta litla frelsi sem hefur þó áunnist, það hefur tvímælalaust verið þannig að fólk hefur sýnt ábyrgð. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við það að markaðurinn finnur á endanum leið í gegnum þetta allt saman. Netverslanirnar sem slíkar eru m.a. ein birtingarmynd þess. Ég verð að segja að það ætti öllum að vera ljóst núna að með tilkomu internetsins er fyrirkomulag áfengismála hér á Íslandi auðvitað barn síns tíma. Það er þannig og það hefur engin áhrif til skertara aðgengis eða hvað það er sem menn eru að reyna að vernda fullorðið fólk fyrir sem hefur alveg stjórn á sínu lífi. Þannig að við skulum bara fókusera á að treysta fólki, einblína á það að efla áfram forvarnir. Það hefur verið gert og við eigum að fara þá leið í stað þess að vera með boð og bönn.

Fyrst ég er nú komin hingað upp að tala um alls konar frelsi þá held ég til að mynda að við eigum að fylgja eftir því sem kom fram í skýrslu til þáverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, frá nefnd sem fór yfir áfengislögin, m.a. auglýsingar varðandi áfengi. Ég held að það sé skref sem við eigum að taka, ekki bara að við eigum að treysta fólki heldur getur það líka haft jákvæð áhrif á fjölmiðlamarkaðinn, það getur haft áhrif í þá veru að við aukum veltu á þeim markaði, en við líka undirstrikum að fólki er treystandi. Við verðum að horfast í augu við það, talandi um netið enn og aftur, að við erum með þessar auglýsingar hér um allt. Af hverju eiga þá ekki Íslendingar, talandi um miðlana hér líka, að fá bita af þeirri köku?

Ég hefði kosið að sjá ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokkinn innan borðs taka af skarið og að hún myndi einu sinni mæta raunveruleikanum eins og í þessu eina máli, bara svona einu sinni til að klukka raunveruleikann og segja: Hér erum við og við skiljum ykkur og við skulum ekki hafa lengur þetta beisli á okkur sem við erum búin að vera með í ákveðinni sýndarmennsku og sýndarveruleika í gegnum öll þessi ár. Í stað þess er hún enn og aftur að stinga hausnum í sandinn og mér finnst það miður. Mér finnst við ættum að nota hvert tækifæri sem við fáum og gefst hérna í þinginu. Mér er minnisstætt til að mynda þetta litla frelsiskref sem við í Viðreisn fengum hér til afgreiðslu í þinginu varðandi það að leggja niður mannanafnanefnd. Ég er ekki að gagnrýna þingflokk hv. þingmanns, Framsóknarflokkinn. Þau voru bara samkvæm sjálfum sér. En enn og aftur þá gat Sjálfstæðisflokkurinn, sem var búinn að tala um frelsi í mannanöfnum og fleira, ekki gert annað en að fella málið. Þannig að við erum að fá hér ítrekað tækifæri eftir tækifæri til að opna á þessa mynd sem við höfum, að við klukkum þennan raunveruleika sem við búum við, þennan nútíma sem við búum við, og aukum frelsi í þessum málum. Þess vegna segi ég: Treystum fólki. Það er kominn tími til í þessum efnum.