Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

grunnskólar.

128. mál
[16:57]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins út af síðasta atriðinu varðandi Reykjavíkurborg. Það á ekki að koma neinum á óvart, því að á síðasta kjörtímabili voru fjórir flokkar og með fullri virðingu fyrir Vinstri grænum þá eru þau með ákveðna skólapólitík og ekki er endilega mikið svigrúm innan þeirra raða til að ýta undir sjálfstætt starfandi skóla. Reynt var að gera sem best menn gátu, meiri hlutinn stóð að mínu mati með þeim skólum sem fyrir eru á svæðinu og gerði það ágætlega en ég hefði gjarnan viljað sjá stærri skref tekin til þess að sýna enn meiri skilning gagnvart sjálfstætt starfandi skólum í Reykjavík.

Nú vil ég segja að Viðreisn sé komin með dyggan bandamann í þessu, sem er m.a. Framsóknarflokkurinn, sem sér tækifærin í því að hafa fjölbreytni í skólakerfinu. Þegar þetta mál var samþykkt á sínum tíma, varðandi þessi 75%, þá var það m.a. eftir langa veru í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum sem studdi þetta mál eindregið. Því er þetta bara hluti af því sem gengur og gerist í pólitík, en mér finnst þróunin vera jákvæð í borginni varðandi það að styðja vel við sjálfstætt starfandi skóla og ég vona að hún haldi áfram.

Varðandi skóla og að þetta séu takmörkuð gæði, þá held ég að við ættum ekki bara að líta á sjálfstætt starfandi skóla. Við sjáum það líka meðal allra opinberu skólanna að stundum er meiri tíska að fara í ákveðna skóla heldur en aðra og getur það verið út af íþróttafélögum eða einhverju sem er í gangi. Því eru þetta hlutir sem við þurfum almennt að hafa í huga varðandi það hvernig við úthlutum stólunum og sætunum í skólunum. En fyrst og síðast þurfum við að halda áfram að byggja upp öflugt menntakerfi með þessum sterku kennurum sem við höfum og það er mikilvægt að hlúa vel að kennaramenntuninni, sem hefur verið gert á umliðnum árum.