Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

umferðarlög.

162. mál
[17:56]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst örstutt viðbót við það sem við vorum að ræða í fyrra andsvari, við sem vinir sveitarfélaganna. Það er kannski ágætt að benda á að þessi breyting sem er lögð til í þessu frumvarpi færir líka ákvörðun um hámarkshraða innan marka sveitarfélags í hendur skipulagsyfirvalda hver sem veghaldarinn er. Í dag er það ekki þannig. Í dag ræður Vegagerðin lögum og lofum á þeim vegum sem hún stýrir innan þess þannig að það er verið að færa skipulagsyfirvöldum á hverjum stað aukin verkfæri.

Varðandi það hvort við eigum að stefna að greiðari samgöngum þá lendum við náttúrlega í smá klemmu vegna þess að sérstaklega þar sem byggð er þéttust, þar sem flest fólk býr, þá fara ólíkir samgöngumátar að rekast hver á annan eins og umhverfis- og samgöngunefnd fékk að kynnast þegar við heimsóttum Transport for London hér fyrr í vetur. Þá þarf stundum að forgangsraða og þá voru þau með haganlega píramída þar sem, að mig minnir, efst voru þau með almenningssamgöngur. Ef eitthvað kom upp á og ef einhver tappi myndaðist þá þyrfti að tryggja að þar færu ekki að myndast einhverjar tafir. Síðan komu virku ferðamátarnir, gangandi og hjólandi, hjólandi sérstaklega, mikið net hjólastíga þar. Neðst í þessum píramída voru síðan einkabílar. Stundum þarf bara að forgangsraða tíma þeirra sem eru í umferðinni þannig að þeir samgöngumátar sem mestu skila til umhverfisins og skila líka mestum jákvæðum áhrifum að ýmsu öðru leyti njóti forgangs. Þannig að jú, ég styð það að umferð gangi greitt fyrir sig en hún getur ekki öll verið greið alltaf. (Forseti hringir.) Og þegar við þurfum að velja þá þurfum við að velja á réttum stað í píramídanum hver fær forgang.