Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar til að varpa ljósi á líkindi íslenskrar samfélagsgerðar og reynslu minnar af vímuefnaneyslu. Sem ungur maður gekk ég í gegnum talsverðrar þrautir tengdar vímuefnaneyslu. Í tæpan áratug seldi ég mér þá ranghugmynd að ég ætti ekki við nein vandamál að stríða, sem blöstu þó við öllum öðrum. Ég hafði alltaf einhverjar aðrar skýringar á þeirri vondu stöðu sem ég var kominn í og kom mér ítrekað í. Ég taldi mér t.d. trú um að ég hefði ekki drukkið of mikið heldur gleymdi ég bara að borða og lenti þess vegna í blakkáti. Ég blandaði saman allt of mörgum tegundum og þegar ég reykti síðan hassið mitt ofan í drykkjuna var komin fullkomin skýring á vanlíðan minni næstu daga á eftir. Ég fannst endalausar skýringar og neitaði að horfast í augu við raunveruleikann, sem var að ég misnotaði vímuefni mér og mínum nánustu til tjóns. Ég lærði það svo síðar að hluti af sjúkdómnum mínum væri þráhyggja.

Og núna, virðulegur forseti, upplifi ég sams konar þráhyggju í samfélagsgerðinni okkar. Í hvert sinn sem rætt er um að styrkja þurfi undirstöður þessa samfélags, t.d. með því að ganga til aukins samstarfs við aðrar þjóðir Evrópu og taka upp gjaldmiðil sem þjónar hagsmunum 300 milljóna manna, þá koma fram úrtöluraddir sem nota nákvæmlega sömu rök og ég gerði sjálfur; að það sé einhverjum öðrum að kenna. Þegar verðbólgan rís stjórnlaust enn og aftur þá er það ekki stjórnvöldum að kenna eða krónunni. En við erum búin að vera að gera þessa tilraun í 100 ár og enn upplifum við sömu hlutina; endalausar öfgar, upp- og niðursveiflur og niðurstaðan er alltaf sú sama: Íslenskur almenningur tapar.

Virðulegi forseti. Íslensk þráhyggja þarf að taka enda. Þetta er fullreynt. (ÞKG: Heyr, heyr.)