Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og mannréttindum og mér finnst mikilvægt að taka það til umræðu hér í dag. Við sem samfélag þurfum að taka til hendinni til að hér náist fram kynjajafnrétti. Það hallar á konur á ýmsum sviðum samfélagsins. Við þurfum að útrýma kynbundnu ofbeldi. Við þurfum að útrýma kynbundnum launamun og við verðum að taka á því að einstæðar mæður eru meðal þeirra sem búa við hvað erfiðustu efnahagslegu kjörin og þar með börn þeirra. En þetta er líka alþjóðleg barátta og við verðum að taka þátt í henni líkt og hæstv. forsætisráðherra hefur gert á kvennaþingi Sameinuðu þjóðanna og fleiri þingmenn úr ýmsum flokkum og það er vel. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, hefur bent á að ef ekkert verður að gert tekur 300 ár að ná fram kynjajafnrétti. Það gengur auðvitað ekki. Því miður erum við að færast fjær kynjajafnrétti á mörgum sviðum. Það hefur verið vegið að sjálfsákvörðunarrétti kvenna í ýmsum löndum þegar kemur að því að ráða yfir eigin líkama. Gegn því þurfum við sem kvenréttindaþjóð, sem höfum verið stolt af okkar skrefum, að berjast. Við þurfum að standa með konum í öðrum heimshlutum sem berjast fyrir sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu, fyrir því að fá að ganga í skóla og fyrir því að lifa sem fullgildir einstaklingar í samfélaginu. Til hamingju með baráttudag kvenna, öll.