Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Um daginn hlustaði ég á þættina Samstaðan sem Þórhildur Ólafsdóttir vann fyrir Ríkisútvarpið þar sem hún talaði við þær sem voru í forystu fyrir Kvennaframboðið og Kvennalistann. Mikið rosalega segja þessir þættir mikilvæga sögu. Mikið ofboðslega eigum við öll sem sitjum hér inni og allt samfélagið þessum konum mikið að þakka fyrir það pólitíska frumkvöðlastarf sem þær unnu. Það er ekki úr vegi að minnast þessa á alþjóðlegum baráttudegi kvenna sem er í dag og kannski ekki síst vegna þess að núna eftir helgi, á mánudaginn kemur, þá fagnar Kvennalistinn fertugsafmæli. Á þessum 40 árum er búið að stökkbreyta íslensku samfélagi. Kvennalistakonur komu hingað inn í mikla hrútasamkundu, sem Alþingi var 1983, og mættu ekki góðu viðmóti hjá öllum samstarfsfélögunum en börðust og börðust árum saman fyrir fæðingarorlofi, leikskólum sem grunnþjónustu og öllu því sem þarf til að konur geti tekið þátt í samfélaginu til jafns við karla. Þær settu ofbeldi á dagskrá stjórnmálanna, eitthvað sem hafði fengið að liggja í kyrrþey í samfélaginu fram að þessu.

Án þeirra værum við ekki það samfélag sem við erum í dag. En þær komu líka með nýja nálgun á svo mörgum öðrum sviðum, sem gleymist stundum. Kvennalistinn var fyrsta stjórnmálaaflið sem setti umhverfismál og loftslagsmál almennilega á dagskrá og í þessum þáttum minnti Kristín Ásgeirsdóttir okkur líka á hvernig þær börðust árið 1995 fyrir því að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar yrðu uppfærð af metnaði. Þær stóðu vörð um jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar, þannig að það næði lengra en hrútarnir sem fyrir voru hefðu kannski leyft því að ná, og bættu síðan við að það þyrfti að ganga enn lengra; (Forseti hringir.) það þyrfti að skylda ríki til að grípa til sérstakra aðgerða til að ná fram þessu jafnrétti. Á þeim árum sem liðin eru frá 1995 (Forseti hringir.) þá hefur það nú aldeilis sýnt sig að ríkið þarf á sparki í rassinn að halda í þessum málum. Þess vegna held ég að við mættum rifja upp það sem Kristín Ásgeirsdóttir sagði hér vorið 1995, (Forseti hringir.) um það að við þurfum að halda áfram að vinna það verk að breyta stjórnarskránni þannig að hún standist þær kröfur sem við eðlilega gerum til hennar.