Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég er landsbyggðarþingmaður og brenn fyrir byggðasjónarmiðum. Síðustu ár hafa verið erfið, heimsfaraldur skall á og við tók stríð Rússa gegn Úkraínu. Hvort tveggja hafði gríðarleg áhrif á alla heimsbyggðina, rekstur ríkisins og allra sveitarfélaga hér á landi með tilheyrandi verðbólgu. En í heimsfaraldrinum þurfti hraðar hendur til að finna leiðir til að hafa samskipti og á örfáum dögum voru allir landsmenn farnir að funda á Teams og Zoom. Þetta stökk okkar allra inn í tölvuheiminn gerði það að verkum að staðsetning skiptir ekki orðið máli. Allir komust á fundi, höfðu rödd og áhrif. Þessi þróun hefur gjörbreytt aðgangi landsbyggðarinnar að námi, þjónustu og atvinnu.

Ljósleiðaravæðing er orðin hluti af mikilvægum innviðum í dag til að geta notið þjónustu, stundað atvinnu eða framhaldsnám hvaðan sem er af landinu. Gríðarleg tækifæri og um leið hagkvæmnissjónarmið fylgja þessum framförum. Ekki þarf að fljúga suður á alla fundi en samt er hægt að hafa öfluga rödd og stefnumótandi áhrif. Fólk flytur með störf sín út á land og gríðarleg tækifæri eru í aðgangi að alhliða þjónustu á mun hagkvæmari hátt, bæði fyrir notendur og rekstraraðila.

Hér áður þurftu ungmenni ávallt að flytjast búferlum að háskólastofnunum en geta nú stundað fjölbreytt nám heiman frá sér hvar sem er á landinu. Ég vil nota tækifærið og hæla hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir að hugsa út fyrir rammann og búa til ákveðinn hvatasjóð í háskólaumhverfinu. Með því verklagi voru allar háskólastofnanir hvattar til að starfa saman og bjóða saman upp á öflugt alhliða fjarnám. Þessi þróun skiptir okkur öll máli hvar sem við búum. Mikilvægt er að slaka ekkert á þessari vegferð. Þetta er framtíðin.