Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Herra forseti. Mikið vildi ég bara geta flutt fagnaðarerindi mitt beint úr sætinu í léttan hljóðnema eins og hér er, en þess mun ég enn bíða. Í gær rakti ég hér stórkostlegar og vaxandi ETS-kolefnisálögur á flugfarþega sem nú blasa við og leggjast þyngst á þá flugfarþega sem lengst þurfa að fljúga til að komast til og frá heimalandinu. Öll viðleitni íslenskra sendifulltrúa, ráðherra og ráðamanna, um að tekið verði tillit til sérstöðu okkar hér við endimörk hins byggilega heims, hefur verið fyrir gýg. Svarið er stutt og laggott: Nei. Sirka 15.000 kall mun að óbreyttu leggjast á hvern farmiða fram og til baka, takk fyrir.

Íslenskri ferðaþjónustu er stefnt í uppnám, þar með ábatasamri alþjóðlegri millilendingarþjónustu, útflutningi á ferskum fiski, inn- og útflutningi ávaxta og grænmetis sem ekki vex hér og áður óþekktir átthagafjötrar verða kynntir til leiks hinum efnaminnstu í samfélaginu, álögum sem nema næstum jafn háum upphæðum og ódýrustu flugfarseðlarnir hafa verið boðnir á.

Er ekki tímabært, herra forseti, að staldra eilítið við og meta stöðu okkar í því hjónabandi við ungfrú Evrópu sem efnt var til fyrir þremur áratugum og er auðvitað fyrst og fremst viðskiptasamband? Nákvæmlega núna er rétti tíminn til að kalla eftir upplýsingum um útgerðarkostnaðinn við þetta EES-hjónaband okkar með öllum þeim kröfum og afarkostum sem þessu sambandi fylgja og bera að sjálfsögðu saman við þá búhnykki sem færa mætti rök fyrir að af ráðahagnum hafi hlotist?

Byrjum á þessum risavöxnu ETS-útblásturssektarákvæðum gagnvart flugfarþegum. Tökum því næst saman allan kostnaðinn við þýðingar hundruða nýrra fyrirmæla og tilskipana á ári hverju, rosalegan ferða- og uppihaldskostnað, þúsundir vinnustunda sendiráðs, ráðuneytis, nefnda og þingmanna við rýningu, umræður, afgreiðslu og innleiðingarkostnað allra þessara 650 árlegu tilskipana, auk annarra meðlimagjalda í þessum dýra og fína klúbbi og berum síðan saman við hreinan efnahagslegan ávinning okkar af öllu bixinu. Skyldu niðurfellingar 10% tolla á sjávarfangi sægreifanna okkar örugglega standa undir öllum útgerðarkostnaðinum? (Forseti hringir.) Ég ætla að óska formlega eftir þessum útreikningum hér úr ræðustóli á komandi dögum.