Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Friðrik Már Sigurðsson (F):

Virðulegur forseti. Moldin er ein mikilvægasta auðlind jarðar. Hún er annar stærsti geymir kolefnis á eftir hafinu og geymir meira kolefni en andrúmsloftið og allur gróður samanlagt. Moldin skapar vaxtarskilyrði fyrir gróður og miðlar vatni og næringarefnum, hvort sem það er til villts gróðurs eða nytjaplantna. Hún er því undirstaða fæðuframleiðslu á landi. Í tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040 kemur fram að mikilvægt sé að tryggja að landbúnaður gegni stóru hlutverki innan hringrásarhagkerfisins, ekki síst varðandi nýtingu á lífrænum efnum. Mikil tækifæri felast í markvissri vinnslu og úrvinnslu á lífrænum úrgangi með það að markmiði að nýta hann áfram sem áburð. Molta er einn besti jarðvegsbætir sem völ er á og gerir jarðveginn frjósamari og heilbrigðari. Nauðsynlegt er að koma upp aðstöðu til úrvinnslu lífræns úrgangs sem fyrst og um land allt. Þannig er hægt að koma í veg fyrir umfangsmikla flutninga á efnum milli héraða eða landshluta. Mikilvægt er að í fram kominni landbúnaðarstefnu fylgi aðgerðaáætlun um eflingu innviða vegna endurnýtingar alls lífræns úrgangs sem fellur til á landinu og hvata til þess að hann verði nýttur til framleiðslu innlends áburðar. Slík endurnýting myndi leiða til aukinnar sjálfbærni landsins.

Virðulegur forseti. Ísland hefur allt til að bera til að vera leiðandi í þessum málum.