Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Viðar Eggertsson (Sf):

Hæstv. forseti. Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti. Þó svo að kvenréttindabaráttan hafi skilað stórkostlegum árangri á þeim ríflega 100 árum síðan konur héldu fyrst upp á þennan alþjóðlega baráttudag eru víða blikur á lofti. Skemmst er frá því að segja að rétt um tvö ár eru liðin frá því að pólsk stjórnvöld svo að segja afnámu með öllu rétt kvenna til þungunarrofs. Hið sama er uppi á teningnum í æ fleiri ríkjum Bandaríkjanna. Óvíða eru réttindi kvenna jafn fótum troðin og í Afganistan þar sem konur búa við kúgun, ofbeldi og einangrun. Frá því talibanar hrifsuðu til sín völd í landinu hafa afganskar konur mátt þola óbærilegar skerðingar á réttindum sínum til frelsis, atvinnu, menntunar og tjáningar.

Alvarlegt kynbundið ofbeldi er líka staðreynd á Íslandi. Af þeim tæplega 33.000 konum sem tekið hafa þátt í rannsókninni Áfallasaga kvenna á vegum Háskóla Íslands hafa 40% orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði umtalsvert í heimsfaraldrinum en lögreglan fær að meðaltali sjö tilkynningar um heimilisofbeldi á degi hverjum. Eftirlitsnefndir Sameinuðu þjóðanna hafa lýst áhyggjum af hárri tíðni heimilisofbeldis á Íslandi og því hvernig tekið er á kynbundnu ofbeldi innan réttarkerfisins hér á landi. Ofbeldi gegn konum er ekki náttúrulögmál. Gera þarf gangskör til að uppræta þennan banvæna faraldur. Það er hægt. (Forseti hringir.) En verkefnið er ærið og það verður ekki leyst nema með markvissum aðgerðum og samfélagslegu átaki. Til hamingju með daginn, konur og við öll.