Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska konum til hamingju með alþjóðlegan baráttudag kvenna. Mig langar að nýta tíma minn hér í dag og víkja sérstaklega að stöðu ljósmæðra. Ljósmæður eru lykilstétt þegar kemur að kvennaheilsu, hvort sem um mæðravernd, fæðingarþjónustu eða aðra sérhæfða heilbrigðisþjónustu við konur er að ræða. Stéttin er að eldast og stórir árgangar hafa verið að fara á eftirlaun undanfarin ár, þó að örlítil aukning sé í þeim fjölda sem tekinn er inn í ljósmæðranámið en hann var 14 síðasta haust. Í vor munu væntanlega 11 ljósmæður útskrifast og það er ljóst að það er ljósmæðraskortur og hann mun aukast næstu árin nema gripið sé inn í. Þar er mikilvægt að lögð sé áhersla á að nemar alls staðar af landinu séu teknir inn í námið, en það er forsenda þess að hægt verði að halda uppi fæðingarþjónustu á landsbyggðinni til framtíðar. Þær breytingar sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði, t.d. með styttingu vinnuvikunnar, koma fram á ólíkan hátt hjá ákveðnum stéttum. Skrefið var mikilvægt og til bóta fyrir stórar kvennastéttir. Það verður hins vegar að líta til þeirra sérstöku aðstæðna sem ljósmæður starfa við, en þær eru margar að sinna fæðingarþjónustu á Landspítala, mæðra- og ungbarnavernd á heilsugæslum og heimaþjónustu. Aukið vaktaálag með tilkomu vaktahvata hefur sett mjög íþyngjandi kröfur á stéttina um vinnutíma til að halda uppi launum og það, ásamt miklu álagi, verður til þess að ljósmæður hverfa til annarra starfa. Tölur frá Danmörku hafa sýnt að meðalstarfstími útskrifaðra ljósmæðra er 5–7 ár í faginu og ekki ástæða til að ætla að þróunin sé með öðrum hætti hér á landi.

Mig langar að hvetja heilbrigðisráðherra, háskólana og vinnumarkaðinn til að huga sérstaklega að þessari mikilvægu stétt og bregðast við þeim vanda sem við erum komin í nú þegar og mun bara aukast ef ekkert verður að gert.