Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[15:54]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Það hræðir mig að fjármálaráðherra skuli ekki vita hvernig bankarnir eru í rauninni að koma sér hjá því að láta vanskil heimilanna koma í ljós með því að lengja í snörunni hjá þeim um þessar mundir með alls konar aðferðum sem munu koma í bakið á þeim síðar. En annars fagna ég þessari umræðu. Sú verðbólga og þær stýrivaxtahækkanir sem nú ganga yfir verða ekki of oft ræddar. Þann 27. september sl. var ég með sams konar umræðu um verðbólgu og vexti og heimilin og staðan hefur bara versnað síðan þá. Ég hef margoft komið þeirri skoðun minni á framfæri að aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgunni eru miklu verri en verðbólgan sjálf og í raun vil ég líkja þeim við það að pissa í skóinn sinn því það eina sem þær gera er að taka þann vanda sem vissulega er fyrir hendi og fresta afleiðingum hans um nokkur ár. Afleiðingarnar verða þá miklu verri en ef við myndum takast á við vandann með öðrum hætti nú. Grófar og gegndarlausar vaxtahækkanir gera lítið annað en að auka á byrðar fólksins í landinu og hæpið er að heimili í neðri hluta tekjustigans muni standa undir því. Stýrivaxtahækkanir hafa hins vegar engin áhrif á rót vandans og leigusamningar eru flestir vísitölutryggðir og hækka því í takti við verðbólguna, auk þess sem vaxtahækkanirnar fara einnig beint út í leiguverð enda hefur leiga hækkað um tugi þúsunda á skömmum tíma. Umtalað skjól verðtryggingar er eins og pappaspjald sem vissulega veitir tímabundið skjól þangað til það fýkur í burt og fólk stendur berskjaldað gagnvart þessu tilbúna fárviðri sem þá mun skella á því með fullum og miskunnarlausum þunga. Einnig blasir það við að vaxtahækkanir eru hreinlega verðbólguhvetjandi. Skuldir fyrirtækja eru 5.500 milljarðar þannig að hvert einasta prósentustig vaxtahækkana kostar fyrirtækin 55 milljarða á ári eða 4,6 milljarða í hverjum einasta mánuði. Seðlabankinn hefur meira en sexfaldað vexti þannig að nú þurfa fyrirtækin að greiða um 25 milljörðum meira á hverjum mánuði eða 300 milljarða á ári til viðbótar við þá greiðslubyrði sem þau báru áður og þessu velta þau að sjálfsögðu beint út í verðlagið og valda þannig hækkandi verðbólgu. Þetta er vítahringur sem verður að stöðva. Þannig er staðan.

En að þessu sögðu þá fagna ég því að Samfylkingin styðji núna Flokk fólksins með því að auka við bankaskattinn en það hefði engu að síður verið betra að hún hefði áttað sig á mikilvægi hans fyrr og stutt við tillögur okkar um hann undanfarin tvö ár.