Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[15:56]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður hér í dag. Ég hef ekki farið leynt með áhyggjur mínar af hækkun verðbólgu og stýrivaxta hér á landi og hef áður vakið athygli á þeim málum og áhrifunum sem þetta hefur haft á húsnæðismarkaðinn og heimilin í landinu. Erfiðleikar við að greiða mánaðarlegar afborganir af lánum gera það að verkum að fólk sker niður í öðrum nauðsynlegum heimilisútgjöldum, útgjöldum í tómstundaiðkun barna, matarinnkaup, tryggingar og jafnvel heilbrigðisþjónustu. Á sama tíma berast fréttir af milljarðahagnaði bankanna og annarra fjármálafyrirtækja og skapar þetta vissulega reiði í samfélaginu.

Miklar sveiflur hafa einkennt húsnæðismarkaðinn hér á landi í allt of langan tíma og má rekja þær til fullkomins skorts á yfirsýn yfir þann fjölda íbúða sem byggður hefur verið og eru í byggingu á landinu öllu. Aðgerðir innviðaráðherra og ríkisstjórnarinnar, um meiri fyrirsjáanleika í uppbyggingu húsnæðis, munu vonandi koma böndum á þessa þróun til framtíðar, auka yfirsýn og stuðla að nauðsynlegu jafnvægi á markaði. Nú er búið að taka allharkalega í handbremsuna af hálfu Seðlabankans sem hefur keðjuverkandi áhrif. Húsnæðismarkaðurinn verður erfiðari, leiga hækkar og möguleikar fólks til að spara fara minnkandi. Svo að jafnvægi megi nást tel ég nauðsynlegt að sveitarfélög taki hendur úr vösum; finni leiðir til að tryggja nægilegt framboð lóða; geri samkomulag við ríkið og sveitarfélög og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um uppbyggingu til framtíðar, svokallað rammasamkomulag; að Seðlabankinn endurskoði hámark veðsetningarhlutfalls og hlutfall greiðslubyrði svo að ekki sé útilokað að ungt fólk geti komið sér þaki yfir höfuðið; að úrræði hlutdeildarlána verði endurskoðað þannig að það henti fyrstu kaupendum og skapi hvata fyrir byggingaraðila til að fjárfesta í uppbyggingu íbúða samhliða því sem markaðurinn þarf auðvitað að vera með afgerandi hætti inni. Staðan gæti verið betri á þessum markaði, virðulegi forseti, og við verðum að grípa til nauðsynlegra aðgerða.