Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[16:05]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það má öllum vera ljóst að staða efnahagsmála á Íslandi er alls ekki góð. Verðbólga rýkur upp sem aldrei fyrr og vextir eru í hæstu hæðum sem er algjört rothögg fyrir almenning og fyrirtæki. Ríkissjóður er rekinn með halla ár eftir ár og nú er svo komið að ekki er gert ráð fyrir hallalausum fjárlögum fyrr en 2027 þegar sú ríkisstjórn sem nú situr hefur löngu runnið sitt skeið á enda. Það var með ólíkindum að heyra í hæstv. ráðherrum Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna vegna væntinga þess efnis að verðbólga væri á niðurleið. Ekkert heyrðist frá Framsókn. Það er enginn fyrirsjáanleiki. Það er ekkert plan. Bankastjóri Seðlabanka Íslands hefur bent á að stjórnvöld kyndi undir verðbólgu með miklum útgjöldum sem eiga sér enga hliðstæðu í íslensku efnahagslífi. Þingmenn Miðflokksins hafa ítrekað bent á það en talað fyrir daufum eyrum. Vegna þessara skoðana seðlabankastjóra og þeirra viðbragða sem komið hafa frá bankanum, sem er þó eingöngu að nýta þau tól sem bankanum er ætlað samkvæmt lögum til þess að slá á frekari útþenslu, skulum við öll hafa í huga að efnahagsmál eru á forræði ríkisstjórnarinnar. Það er hún sem ber ábyrgð. Það er enginn annar. Þangað á að beina gagnrýni.