Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[16:07]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Forseti. Fólk er hætt að trúa því að við náum tökum á verðbólgunni, sagði hæstv. fjármálaráðherra í Kastljósi í síðustu viku og þetta er rétt hjá honum. Hæstv. fjármálaráðherra greinir vandann rétt en hann er fullkomlega blindur á eigin ábyrgð, eða hvers vegna heldur hann eiginlega að fólk sé hætt að trúa því að stjórnvöldum takist að koma böndum á verðbólguna, jafnvel þótt það standi ekki á Seðlabankanum að hækka og hækka vextina? Hvers vegna skyldi það nú vera? Kannski er það vegna þess að fólk sér ríkisstjórn sem er ráðalaus. Fólk sér forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem benda hingað og þangað, benda á fólkið í landinu, benda á Seðlabankann, benda á aðila vinnumarkaðarins, vinnumarkaðsmódelið skemmt, segja þau, benda á framúrkeyrslu einstakra stofnana, allt í einu átti það að vera uppspretta verðbólgunnar. En þessir sömu ráðherrar hafa ekki sett fram neina trúverðuga áætlun til að taka á þenslunni. Ætli þetta hafi eitthvað með það að gera að við erum með ríkisstjórn hérna sem sér ekkert athugavert við það að reka ríkissjóð með 120 milljarða halla í bullandi verðbólgu og vaxtahækkunum sem streitist á móti því að lagðir verði sanngjarnir skattar á ofurhagnað, ofurlaun og auðlindarentu?

Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að verðbólguvæntingar og slæmar verðbólguvæntingar eru ekki eitthvert samsæri fólksins í landinu og fyrirtækjanna gegn hæstv. fjármálaráðherra og gegn ríkisstjórninni. Verðbólguvæntingar eru bara þegar allt kemur til alls spá fólksins í landinu og markaðsaðila um þróun verðbólgunnar á næstu misserum. Fólkið í landinu er engir bjánar. Auðvitað byggja verðbólguvæntingar bara fyrst og fremst á því (Forseti hringir.) hvort hér sé trúverðug efnahagsstjórn, traust hagstjórn og dómurinn er ósköp einfaldlega þessi, eins og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á hérna áðan, (Forseti hringir.) að fólkið er búið að missa trúna á að honum takist (Forseti hringir.) að ná niður verðbólgunni. Hæstv. ríkisstjórn verður að gera betur.

(Forseti (DME): Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutímann.)