Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[16:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Spá Flokks fólksins varðandi verðbólgu hefur mjög ræst. Við byrjuðum að spá því að verðbólgan færi úr böndunum, einn flokka á þingi, fyrir um þremur árum síðan. Þann 20. mars 2020 var verðbólgan 2,1%, 30. apríl sama ár var hún 2,2%, þann 7. maí var hún 2,6% og 11. mars 2021 4,3%. Og hverju svaraði fjármálaráðherra á þessum tíma? Hann hafði engar áhyggjur af verðbólgunni. Þeir höfðu fullt af ráðum til að takast á við hana en gerðu ekkert. Lausn hans og ríkisstjórnarinnar var því að stinga hausnum í sandinn og gera ekki neitt. Hver er staðan í dag? Jú, verðbólgan er komin á flug. Á hverjum bitnar það mest? Jú, sárafátæku fólki sem á ekki til hnífs og skeiðar og unga fólkinu okkar sem var í góðri trú að kaupa sér sína fyrstu íbúð og trúði rangfærslum um lágvaxtaríkið á Íslandi sem var komið til að vera.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnum orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég verð nú bara að dást að hæfileikum hv. þingmanns til að spá fyrir um meiri verðbólgu í framtíðinni en allir helstu spáaðilar gera á Íslandi og flestir sem eru þátttakendur á íslenskum fjármálamarkaði. Ég ætla ekki að þykjast geta farið í hans spor þegar kemur að því að spá fyrir um framtíðina.“

Honum væri nær að hlusta og gera eitthvað. En á sama tíma, hverjar eru lausnir þessarar ríkisstjórnar?

Ef við förum yfir þessar spurningar sem voru lagðar fram í dag er svarið við fyrstu spurningunni: Ekkert.

Svarið við annarri spurningunni: Ekkert.

Svarið við þriðju spurningunni: Hann hefur ekki hugmynd um það.

Svarið við fjórðu spurningunni: Stóraukin fátækt barna, hrun á heilbrigðiskerfinu og bara ríkir munu geta keypt sér íbúðir.

Svarið við fimmtu spurningunni: Auðvitað ekki, þeir ríku borga háa skatta og þurfa því nauðsynlega á 60.000 kr. persónuafslætti að halda.

Svarið við sjöttu spurningunni: Leigubremsur? Nei. Mótvægisaðgerðir? Auðvitað ekki. Stýrivaxtahryðjuverkahækkanir eru það eina sem dugir.