Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[16:19]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Hvers vegna þarf margfalt hærri vexti hér á landi til að bregðast við sömu verðbólgu og í öðrum Evrópuríkjum? Ísland er ekki eina landið sem finnur fyrir verðbólgu núna en stóra spurningin er þessi: Hvers vegna þarf að hækka vextina margfalt hér? Á Íslandi er erfiðara fyrir fólk að eignast húsnæði en í nágrannaríkjunum. Matur er dýrari, húsnæðislán eru dýrari, tryggingar eru dýrari, vextir eru hærri. Alvörusamkeppni milli banka er ekki til. Sveiflur á gengi krónunnar gera íslenskan markað lítið heillandi fyrir erlend fyrirtæki. Þau eru nefnilega vön því að geta gert spár lengra fram í tímann en nokkrar vikur. Sveiflurnar verja fyrirtækin fyrir erlendri samkeppni og fyrir það greiðir fólkið í landinu hátt gjald.

Hvaða réttlæti er í því að fólk þurfi að borga fyrir íbúðina sína mörgum sinnum út af svimandi háum vöxtum, að matarkarfa fjölskyldunnar sé alltaf dýrari á Íslandi, að ungar barnafjölskyldur taki á sig miklar vaxtahækkanir ellefu sinnum í röð á meðan aðrir hópar á Íslandi eru í skjóli evru og dollara? Um 300 íslensk stórfyrirtæki nota ekki krónuna og það gerir stóreignafólk ekki heldur sem geymir fjármagn í erlendum gjaldmiðlum. Þegar vextir hækka þá er það þess vegna almenningur og minni fyrirtæki sem taka á sig kostnaðinn. Stærsti hluti hagkerfisins sleppur þannig að höggið verður þyngra á hinum. Auðvitað skapar þetta óréttlæti spennu. Það er ekki jafnt gefið.

Stóra myndin snýst um jöfn tækifæri, að Ísland verði land jafnra tækifæra en ekki land tækifæra fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Pólitíkin verður að sameinast um það stóra verkefni að tryggja jöfn tækifæri á Íslandi með almennum reglum, heilbrigðri samkeppni og síðast en ekki síst með stöðugum gjaldmiðli.