Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[16:21]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Nú sjáum við fram á erfiða tíma hjá þeim sem festu vexti við íbúðalán sín í þrjú ár þar sem mörg lán losna nú í haust og afborgun húsnæðislána mun að öllum líkindum hækka. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir þetta fólk? Vegna þess að á sama tíma hækkar matarkarfan, bensín og gjöld. Það virðist ekki vera áhugi hjá ríkisstjórninni að koma fram með heildstæða áætlun sem hægt er að standa við. Ríkisstjórnin getur ekki setið sem fastast í stólunum og vonast til þess að málunum verði reddað.

Ég segi því: Kæra ríkisstjórn, reynið að setja ykkur í þá stöðu sem unga fólkið okkar er í, sem er að reyna eða mun reyna að koma þaki yfir höfuðið en getur ekki gert það án þess að taka lán við þær ömurlegu aðstæður sem nú eru í boði. Er einhver hér inni sem vill vera í þessari stöðu? Ég á ekki von á því. En hvað er til ráða? Ég alla vega geri kröfu til þess að ríkisstjórnin, með hæstv. forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra í broddi fylkingar, upplýsi okkur og alla aðra um það. Ef hún treystir sér ekki til þess þá verður hún að víkja og hleypa þá öðrum að sem treysta sér í þetta mikilvæga verkefni.