Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023 - 2026.

795. mál
[16:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Á þessum tímapunkti var nú þetta mál ekki komið fram, þannig að eftir umræðu í ríkisstjórn var málið afgreitt þaðan í ágætri sátt og málið var í kjölfarið afgreitt út úr þingflokkum stjórnarflokkanna. Við höfum auðvitað fundið fyrir því við undirbúning málsins að aðilar hafa viðrað áhyggjur af því að skilgreiningin á hatursorðræðu sé ekki nægjanlega skýr. Það er eðlileg umræða að taka því hún er t.d. ekki alveg einsleit milli landa. Við erum hins vegar með lagaákvæði sem við erum nýlega búin að samþykkja og þess þá heldur finnst mér mikilvægt að gera nákvæmlega þetta sem hér er verið að leggja til, þ.e. að efna til fræðslu og umræðu þannig að meðvitundin aukist um hvað nákvæmlega við vorum að samþykkja með því að setja þetta ákvæði í lög og hvernig við getum fylgt eftir lögunum með fræðslu og umræðu.

Ég tel að það hafi náðst góð sátt í ríkisstjórninni um málið og vonast hins vegar til þess að hv. nefnd gefi sér góðan tíma til að kafa dálítið ofan í þessar skilgreiningar því ég held að það sé mjög þarft verkefni.