Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023 - 2026.

795. mál
[16:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Bara þannig að það sé sagt, af því að ég er oft talin koma hægra megin frá á litrófinu í pólitíkinni, þá er algjört lykilatriði að við stöndum vörð um tjáningarfrelsið. Það er algjört lykilatriði. En af því að maður hefur líka verið alinn upp við að frelsinu fylgi ábyrgð þá er ekki hægt að tala um að þetta sé algerlega án ábyrgðar, að það sé hægt að segja allt. Þess vegna skiptir miklu máli að við förum inn í það hvernig við getum öll skilið hatursorðræðuna þannig að við komum í veg fyrir hana og hún verði ekki jafn sársaukafullt tæki og tól til að meiða einstaklinga og fólk úti í samfélaginu okkar. Það er ekkert annað sem hún gerir og við verðum að koma í veg fyrir það.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra — af því að ég vil ekki hvetja til frekari útgjalda, ég held að það sé alveg ljóst hver mín skoðun er á því — treystir forsætisráðherra sér til þess að forgangsraða innan þess ramma sem hún hefur í þágu m.a. þessa máls þannig að við náum þá einhverjum árangri í þessu?