153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

bygging nýrrar bálstofu.

[10:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er nú einhver misskilningur í gangi hér í þessum málum, að ég hafi hafið einhverjar viðræður við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis um að byggja nýtt húsnæði fyrir bálstofu. Það eru engar slíkar viðræður í gangi, bara svo það sé alveg á hreinu. Það er ágætisstaða í sjálfu sér á bálförum í dag. Það er auðvitað mikil aukning sem á sér stað þar sem bálfarir koma við útfarir sem nemur tugum prósenta. Á höfuðborgarsvæðinu liggur það sennilega orðið einhvers staðar í kringum 60–70% af heildarútgjöldum þar sem eru bálfarir en því er annað ágætlega með þeirri þjónustu sem er til staðar í dag. Rekstrarleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á þeirri bálstofu sem nú er í rekstri er til ársins 2032. Það liggur fyrir að ofnarnir eru orðnir gamlir, það þarf að endurnýja þá og ég geri ráð fyrir því að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæmis séu þá með það í undirbúningi að endurnýja þessa ofna. Það þarf einnig að skoða mögulega aðgengismál og slíkt inni í Fossvogi en eins og staðan er eru engar hugmyndir um að fara að byggja fyrir einhverjar stórkostlegar upphæðir nýja aðstöðu.

Það eru önnur mál sem að þessu snúa sem við þurfum að hafa í huga og mér er hugsað svolítið til og það er staða landsbyggðarinnar í þessum málum. Þar er verulega mikið lægra hlutfall þar sem bálfarir koma til við útfarir. Það einkennist eflaust af því að það er dýr flutningskostnaður og erfiðar aðstæður. Það er svo sem komin fram ný tækni í þessu og einfaldari og möguleikar á því að horfa til þess í framtíðinni að það geti verið boðið upp á þjónustu víðar á landinu til að mæta þörfum þeirra sem þar búa.