153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

kostnaður landsbyggðarfólks vegna bálfara.

[11:03]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég er á nokkuð svipuðum stað, nema mig langar að taka fyrir það sem við köllum landsbyggðarvinkilinn. Hæstv. ráðherra nefndi hér að það væru 60–70% íbúa höfuðborgarsvæðisins sem kysu bálför. Það stendur ekki öllum landsmönnum til boða að standa fyrir því að ástvinir fái bálför nema þá með ærnum flutningskostnaði. Það er ekkert skrýtið að sjá í gögnum að talsverður munur er á því eftir búsetu hvort fólk velur hefðbundna útför eða bálför. Það skal þó sagt að íbúar landsbyggðarinnar, eins og allir landsmenn, þurfa ekki að greiða fyrir bálförina sjálfa en það breytir því ekki að eina bálstofan er í Reykjavík og það liggur ótrúlegur kostnaður í því að flytja látinn ástvin á milli landsvæða.

Ég vil því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvernig hann hyggst mæta þeim sem óska eftir bálför og eru staðsettir utan suðvesturhornsins?