Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

Fjölmiðlafrelsi.

[11:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu og vil nota mínar mínútur til að ræða um fjölmiðla og fjölmiðlafólk sem þarf að sitja undir því að vera stefnt fyrir dóm í gríð og erg, oftar en ekki af stórum leikendum í samfélaginu, mjög fjársterkum aðilum og fyrirtækjum sem munar ekkert um að henda í slíkt mál milljónamálskostnaði eða eru jafnvel með lögmenn í vinnu hjá sér sem geta sinnt slíkum gæluverkefnum. Þetta er mjög íþyngjandi fyrir fjölmiðla og ég held að stjórnvöld þurfi að íhuga það alvarlega hvort tryggja eigi einhvers konar stuðning fyrir fjölmiðla sem þurfa að sæta þessu og sérstaklega fjölmiðlafólk, sem er alla jafna láglaunastétt einhverra hluta vegna. Það er auðvitað veikleiki í sjálfu sér hversu lág laun eru hjá blaðamönnum á Íslandi því að þetta býður upp á að það verði ákveðið heilasog út úr stéttinni þegar fjársterkir aðilar kaupa upp vandaða blaðamenn og reynslumikla blaðamenn til að verða kynningarfulltrúar fyrir sterka aðila.

Það skiptir í rauninni ekki máli þó að fjölmiðlafólkið sjálft og fjölmiðlarnir séu sýknaðir, dæmdur málskostnaður er þá oft ekki greiddur af þeim sem tapaði málinu, þ.e. þeim sem höfðaði málið. Fjölmiðlafólkið þarf að leitast eftir því að fá slíkan kostnað greiddan og þá er dæmdur málskostnaður oft bara dropi í haf þess lögmannskostnaðar sem fylgir slíkum málarekstri. Þetta hefur eðlilega mikinn fælingarmátt, ekki síst í ljósi þess að stéttin er alla jafna láglaunastétt. Þetta getur leitt til þess að fjölmiðlafólk, sem á að upplýsa um spillingu, á að upplýsa um hvaðeina sem á sér stað af hálfu valdafólks í samfélaginu, hvort sem er vegna peningavalds eða opinbers valds, að blaðamenn (Forseti hringir.) veigri sér við að stinga á slíkum kýlum (Forseti hringir.) af ótta við að það komi þá málshöfðun sem muni taka næstu ár.