Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

Fjölmiðlafrelsi.

[11:26]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttir fyrir þessa góðu umræðu og góða útgangspunkta. Ég ætla hins vegar aðeins að beygja af leið í minni ræðu á þessum litla tíma sem mér er veittur til að beina spurningum til hæstv. ráðherra varðandi það sem hefur komið upp ítrekað á undanförnum misserum og hefur verið gagnrýnt, sem er hindrun á aðgengi fjölmiðla að störfum lögreglu. Þetta er mjög alvarlegt mál vegna þess að tilgangur fjölmiðla er ekki eingöngu að tryggja lýðræðisleg réttindi borgaranna til upplýsinga og annað og upplýsa samfélagið um það sem er í gangi. Tilgangur fjölmiðla ætti líka í augum ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda að vera sá að varpa ljósi á störf stjórnvalda, lögreglu, með þeim hætti að traust fólks aukist á lögreglu. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar komið er í veg fyrir það.

Annað hefur verið bent á í þessu samhengi sem er sögulegt hlutverk fjölmiðla. Það hefur t.d. ítrekað komið fram að ekki séu til myndir af mjög mikilvægum aðgerðum í sögu Íslands, björgunaraðgerðum og ýmsu öðru, þar sem aðgengi fjölmiðla hefur verið hindrað á vettvangi. Nú erum við með nýleg dæmi og mér skilst að það séu í gildi leiðbeiningar um samskipti lögreglu og fjölmiðla, en annaðhvort er þeim ekki fylgt eða þær eru ekki nægilega góðar til að tryggja að almenningur geti verið upplýstur um það sem er í gangi í störfum lögreglu.

Mig langaði til að bæta því inn í þessa umræðu og óska eftir viðbrögðum frá hæstv. ráðherra varðandi það hvort ekki þurfi einhvern veginn að bregðast við þessari stöðu.