Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

Fjölmiðlafrelsi.

[11:31]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu hér og ég vil nota tækifærið og ræða hvernig hægt er að styrkja fjölmiðla landsins. Þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að unnið verði að breytingum á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, sem fela í sér breytt fyrirkomulag við innheimtu útvarpsgjalds. Lagt er til að landsmenn hafi valfrelsi, þeir hafi valfrelsi um hvernig beri að ráðstafa þessu gjaldi þannig að þeir geti með framlagi sínu tryggt tiltekinn fjölbreytileika í rekstri fjölmiðla landsins. Með því að sitja eitt að þessum gjaldstofni hefur Ríkisútvarpið haft yfirburðastöðu gagnvart öllum öðrum fjölmiðlum og gildir það um fréttaflutning sem og dagskrárgerð. Slík einokunarstaða, sérstaklega ríkisfjölmiðils, er óeðlileg nú á tímum og vinnur beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana. Það er þetta síðastnefnda sem mér finnst skipta máli, að við getum stuðlað að fjölbreyttri hugsun og skoðunum. Það leiðir til aukins fjölbreytileika þjóðfélagsumræðunnar og eflir líka frekari skilning almennings á henni. Áhrif fjölmiðla á samfélagið eru svo viðamikil að fjölmiðlalæsi okkar almennings er ein af grundvallarforsendum þess að fólk geti talist fullgildir og virkir borgarar í lýðræðisríki sem er jú hverju samfélagi nauðsynlegt.