Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

Fjölmiðlafrelsi.

[11:32]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir að hefja máls á þessari umræðu og hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra fyrir hennar svör. Frjálsir fjölmiðlar eru hornsteinar lýðræðisins eins og hér hefur verið sagt. Aðgangur almennings að traustum upplýsingum er forsenda upplýstrar umræðu. Um þetta held ég að við séum öll sammála. Upplýst umræða skapast ef við sem einstaklingar búum yfir öflugu og traustu miðla- og upplýsingalæsi. Öflugt læsi á miðla og upplýsingar vinnur svo gegn upplýsingaóreiðu — traustar upplýsingar, aukið læsi, minni óreiða, betra samfélag — ef við erum sammála því að fjölmiðlar séu hornsteinar lýðræðisins.

Virðulegi forseti. Þá hljótum við að vera sammála um að gera allt hvað við getum til að verja sjálfstæði fjölmiðla og ritstjórnarlegt frelsi þeirra. Svo það megi vera þarf að styðja fjölmiðla sem sinna óháðri fréttaöflun, greinandi blaðamennsku og halda úti lýðræðislegri samfélagsumræðu, annars vegar með regluverki og hins vegar fjárstuðningi.

Í löndum þar sem stjórnvöld styðja eða standa að fjölmiðli í almannaþágu er traust á þeim líka meira. Alþingi gerði frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um vernd uppljóstrara að lögum fyrir að verða þremur árum síðan. Lögin styrkja stöðu uppljóstrara sem í góðri trú greina frá lögbrotum eða ámælisverðri háttsemi. Þetta var klárlega skref í þágu aukins gagnsæis. Uppljóstrarar eiga að hafa leiðir til að koma upplýsingum til réttra aðila án þess að óttast um sinn hag en að sama skapi á fjölmiðlafólk að geta sinnt mikilvægri vinnu sinni án áreitni eða hótana. Þegar valdamiklir einstaklingar eða fyrirtæki sem fjölmiðlafólk hefur dregið upp mynd af sem beitir öllum brögðum, til að mynda skoðanamyndandi aðferðum, til að hafa áhrif á samfélagsumræðuna á trúverðugleika fjölmiðlafólks, þá þarf líka að grípa til varna svo hér þrífist heilbrigð og gagnrýnin lýðræðisleg samfélagsumræða sem byggir á traustum heimildum en ekki falsfréttum og upplýsingaóreiðu. Til þess þarf fjölmiðlafólk að búa við öryggi og tryggingu fyrir því að ekki verði á það ráðist.