153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

Fjölmiðlafrelsi.

[11:35]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Jódísi Skúladóttur, fyrir að hafa frumkvæði að þessari mikilvægu umræðu. Ég hef áhyggjur af stöðu fjölmiðla, ekki aðeins hér á landi heldur einnig í vestrænum heimi. Fagleg fjölmiðlun, rannsóknarblaðamennska og miðlun rökstuddra frétta hefur á undanförnum árum átt í höggi við efni á erlendum samfélagsmiðlum sem skerðir rekstrargrundvöll fjölmiðla. Einnig færist í vöxt að sótt sé að fjölmiðlum vegna umfjöllunar um málefni sem þó sannarlega á erindi við almenning. Mikilvægt er að tryggja heilsusamlegt vinnuumhverfi fjölmiðlafólks, rétt eins og annarra stétta. Í því sambandi er vert að benda sérstaklega á vinnuverndarlöggjöfina hér á landi.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um hversu mikilvægir fjölmiðlar eru í lýðræðissamfélagi. Nauðsynlegt aðhald þeirra gagnvart stjórnvöldum er ótvírætt og á sama tíma er ábyrgð þeirra mikil. Fagleg og óháð fréttamennska, þar sem gætt er að siðareglum, skiptir einnig höfuðmáli til að efla traust.

Virðulegi forseti. Mér finnst bæði eðlilegt og sjálfsagt að stjórnvöld styðji við frjálsa fjölmiðla og setji um leið eðlilegar kröfur um faglegan fréttaflutning, fjölbreytni og dreifingu í samstarfi við stéttina sjálfa. Í þessu sambandi kalla ég eftir mun meiri samvinnu ríkis og fjölmiðla og að stjórnvöld taki m.a. þær áherslur til greina sem eru á Norðurlöndunum. Falsfréttir, áróðursherferðir og misnotkun á fjölmiðlum leiða til tortryggni. Tilraunir í krafti valds eða fjármagns til að koma í veg fyrir umfjöllun verður að taka alvarlega. Í mínum huga eru slíkar tilraunir ekki bara óásættanlegar heldur beinlínis hættulegar lýðræði og frelsi í landinu.