Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

Fjölmiðlafrelsi.

[11:39]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Jódísi Skúladóttur, kærlega fyrir frumkvæðið að þessari þörfu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég tek undir áherslur hv. þingmanns og málshefjanda varðandi mikilvægt hlutverk fjölmiðla, ekki síst á tímum upplýsingaóreiðu og falsfrétta, en hæstv. ráðherra kom sömuleiðis inn á þetta í framsögu sinni. Varðandi þetta hlutverk er rekstur fjölmiðla og fjárhagslegur grundvöllur lykilatriði, um það erum við hv. þingmaður sammála. En öll umræða hér um sjálfstæði fjölmiðla, um samfélagslegt mikilvægi þeirra og um fjárhagslega burði þeirra fer fram í skugga þeirrar staðreyndar að við höfum búið til umhverfi sem er frjálsum fjölmiðlum mjög óhagfellt. Yfirburðastaða ríkisins á fjölmiðlamarkaði er þannig gríðarleg og hefur bara styrkst á síðustu árum. Á meðan staðan er óbreytt verður ómögulegt að tryggja heilbrigða samkeppni á markaðnum.

Ríkisfjölmiðillinn á öfluga varðmenn hér á Alþingi og víðar. Það er því ólíklegt að ríkið hverfi af fjölmiðlamarkaði a.m.k. í náinni framtíð. Hins vegar hljóta stuðningsmenn öflugra og frjálsra fjölmiðla að vilja að við styrkjum rekstrarumhverfi frjálsra fjölmiðla. Mikilvægt skref í þá átt væri að draga ríkið út af auglýsingamarkaði og sömuleiðis væri hægt að létta álögum á fjölmiðla.

Virðulegi forseti. Þeir sem tala fyrir hlutverki fjölmiðla sem hornsteina lýðræðis ættu að búa svo um hnútana að þeir geti raunverulega sinnt hlutverki sínu, að þeir geti raunverulega veitt aðhald og staðið fyrir faglegum fréttaflutningi. Á meðan frjálsir fjölmiðlar berjast í bökkum við hlið forréttindahlaðins ríkisfjölmiðils verður framlag þeirra veikburða og máttlaust. Það er löggjafinn, það erum við, sem skapar og viðheldur þessari ójöfnu stöðu. Ég fagna því umræðunni hér í dag um mikilvægi frjálsra fjölmiðla og í samhengi við fjárhagslega stöðu þeirra.