Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

Fjölmiðlafrelsi.

[11:50]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir góða umræðu hér í dag. Í gær lýsti Blaðamannafélag Íslands yfir þungum áhyggjum af ákvörðun héraðsdómara að kalla fulltrúa nokkurra fjölmiðla fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur fyrir að hafa farið gegn fréttabanni sem dómarinn setti í byrjun janúar vegna tiltekins sakamáls sem var til meðferðar hjá dómnum. Það má setja spurningarmerki við þá þróun að dómstólar séu að setja fjölmiðlum slíkar takmarkanir, en að mati þeirrar sem hér stendur er þá eðlilegra að dómarar óski eftir því að þinghald sé lokað ef um slíka rannsóknarhagsmuni er að ræða.

Svo ég vísi í yfirlýsingu Blaðamannafélags Íslands, með leyfi forseta:

„Blaðamannafélagið mótmælir túlkun dómarans á lögum um meðferð sakamála og telur hana stangast á við ákvæði um tjáningarfrelsi í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála, auk þess sem lög kveði skýrt á um að þinghald skuli háð í heyranda hljóði.“

Ég vil nota þessar síðustu mínútur til að hvetja okkur sem samfélag að leyfa því aldrei að gerast að vegið sé að tjáningarfrelsinu; að við séum meðvituð um það að í heimi þar sem ógnir, stríð og náttúruvá sökum loftslagsbreytinga eru orðin partur af okkar daglega lífi, þá verðum við að tryggja fjölmiðlum það öryggi og starfsumhverfi sem þeim ber til að geta sinnt mikilvægum skyldum sínum.