Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

greinargerð um sölu Lindarhvols.

[11:56]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill geta þess að sú ákvörðun sem liggur fyrir síðast um þetta mál, varðandi birtingu á greinargerð hv. fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda, miðaðist við það, þegar síðast var rætt um það í forsætisnefnd, að hún yrði ekki birt að sinni. Forseti mun að sjálfsögðu, eins og áður var getið, fara yfir niðurstöðu úrskurðarnefndar upplýsingamála og skoða þau sjónarmið sem þar liggja til grundvallar, m.a. um birtingu gagna sem eru í fórum þingsins að þessu leyti.

Forseti vill jafnframt geta þess, af því að minnst er á úrskurðarnefnd um upplýsingamál, að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur áður, alla vega í nokkrum úrskurðum á árinu 2021, tekið lögfræðilega afstöðu til þeirrar spurningar hvort greinargerð setts ríkisendurskoðanda heyri undir 15. gr. laga um Ríkisendurskoðun og talið að svo væri. Það er því auðvitað um það að ræða, ef við erum að tala um þann hluta málsins, að sjónarmið úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafa töluvert gildi varðandi lögskýringu að þessu leyti þó að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ekki lögsögu yfir þinginu.