Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

ákvörðun nr. 59/2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn o.fl.

805. mál
[12:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar og vildi að ég gæti svarað alveg skýrt. En ég myndi halda að það sé talsvert svigrúm eða engin ein algjör leið heldur einhver valkostur á milli leiða hvernig þessu eftirliti er háttað sem myndi þá birtast í frumvarpi menningar- og viðskiptaráðherra. Ég nefni það þó hér, í ljósi þess sem hv. þingmaður nefnir — ég get ekki sagt til um hvort fullt tilefni sé til áhyggna hans eða hvort svörin séu til, ég vildi að ég hefði svörin ef þau eru til — að ef slíkt eftirlit er þarna undirliggjandi, sérstaklega ef það er ekki sagt upphátt, ef það er meira en sagt er frá og jafnvel þótt svo sé og ef það er sagt frá, þá hvet ég nefndina til að skoða það vel, bæði þá nefnd sem fjallar um þessa tillögu en svo að sjálfsögðu líka nefndina sem fjallar um frumvarpið þegar þar að kemur. Mín persónulega skoðun er sú að ef fullt tilefni er til þess að hafa áhyggjur af því sem hv. þingmaður nefnir þá deili ég þeim áhyggjum og tel okkur þurfa að fara mjög varlega í því að vera með eitthvert eftirlit umfram það sem þarf og einhvers konar allsherjareftirlit til að skanna eitthvað sem við öll erum sammála um að vilja ná tökum á og ekki eigi að vera til staðar. Þá geti það ekki verið þannig að tilgangurinn helgi meðalið og að öll netumferð sé vöktuð. Ég persónulega mundi hafa mjög sterka skoðun á því ef svo er. Ég vænti þess að nefndirnar muni skoða það vel og ef við getum einhvern vegin orðið að liði þá er það sjálfsagt, sú sem hér stendur eða utanríkisráðuneyti. En það er væntanlega líka að hluta til í höndum fagráðuneytis.