Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

ákvörðun nr. 59/2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn o.fl.

805. mál
[12:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í samskiptum okkar við pírata sem hafa verið á Evrópuþinginu er þessi innleiðing mun valkvæðari heldur en sú innleiðing sem er verið að vinna í akkúrat núna, þar sem á að bæta við skyldu. Þetta er svona þrep eða skref í áttina að því sem nú er verið að vinna innan Evrópuþingsins og á að gera að skyldu. Þetta eru alla vega þær áhyggjur sem píratar úti í Evrópu og græningjar þarna hafa haft en hafa einhvern veginn fengið rosalega lítinn hljómgrunn gagnvart því sem hæstv. ráðherra var að minnast á áðan og ég fagna gríðarlega í umræðu um þetta mál. Ég held að við þurfum að passa einmitt vel upp á þetta, mín vegna, ef það verður að einhvers konar skyldu að setja netvöktunarbúnað á alla netumferð enda er sú netumferð sem á að finna með slíkum vöktunarbúnaði hvort eð er yfirleitt dulkóðuð og finnst ekki. Þá skilar það ekki tilætluðum árangri nema að þá verða eftirlitstæki fyrir allt annað sem er ódulkóðað, sem eru bara almenn samskipti. Það er bara eins og að opna bréf sem allir kannast við að er ekki ásættanlegt, að hið opinbera eða einhverjir einkaaðilar séu í rauninni milligönguaðilar og skanni og opni bréf sem fólk sendir á milli sín. Ég fagna því þessari hvatningu ráðherra til nefndarinnar mjög mikið.