Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

greining á samkenndarþreytu og tillögur að úrræðum.

208. mál
[13:26]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá að geta komið hingað upp og tekið undir þessa þingsályktunartillögu. Þetta er mjög mikilvægt mál og ég styð það að skipaður verði starfshópur með því markmiði að greina og gera tillögur að fyrirkomulagi til þess að efla geðheilsu fagfólks af því að við vitum að það er auðvitað meira álag á fólk sem vinnur við að hjálpa öðrum. Hér er sérstaklega nefnt starfsfólk heilbrigðiskerfisins, lögreglu, slökkviliðs og starfsfólk í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Einkennin eru, eins og kom vel fram hérna áðan, að fólk gefi meira af eigin orku til vinnu sinnar en það fær til baka.

Mig langaði líka bara til að koma inn á það þessu tengt, en ég er hjúkrunarfræðingur og hef starfað við það og óbeint núna, ég er ekki inni á stofnunum í vinnu eins og er, að þetta er yndislegt starf og gott að geta gefið af sér en maður verður auðvitað að passa upp á sig. Í mínu námi, framhaldsnámi, þegar ég skrifaði meistararitgerð, var ég svo heilluð af þessu streituhugtaki, það var svo magnað. Það er nú orðið svolítið síðan en ég ákvað að skrifa meistararitgerð mína með áherslu á streitu, kulnun og bjargráð af því að það er gríðarlega mikilvægt að taka á þessum málum. En varðandi þá ritgerð, þótt ég fari nú ekki að beina alveg athyglinni að því, þá voru hjúkrunarfræðingar þar undir, bæði á Landspítalanum og á Akureyri. Það var verið að tengja þetta starfsaldri og sjúklingahóp og fleiru. En það var svo magnað hvað kom út úr því og það er sá punktur sem mig langar að koma með hérna. Það sem kom út úr því var að mesta kulnunin mældist hjá ungu hjúkrunarfræðingunum. Það var ekki tengt skjólstæðingum. Það sem tengdist því var að þetta voru ungir hjúkrunarfræðingar, mikil vinna á þeim, voru að kaupa sína fyrstu eign, voru að koma upp börnum og við vitum það bara að þetta er erfitt og tímafrekt ferli í lífinu þegar maður er að koma sér upp bæði eignum og börnum. Þetta er mikið álag. Þetta kom á óvart en sýnir okkur um leið að hjúkrunarfræðingar eru í meiri áhættu að þróa þetta með sér en líka bara í rauninni við hin. Eins og þessir ungu hjúkrunarfræðingar; þetta er bara ungt fólk í þessum aðstæðum, sama hvað það vinnur við. Það er í rauninni sama hvað við gerum, við þurfum öll að huga vel að eigin heilsu. Þá er það akkúrat svefninn sem er mikilvægastur og næring og hreyfing. Ég mæli með því að hvern dag, hvað sem við vinnum við, þá hugum við að því hvernig okkur líður og hvernig við sofum og ef við sofum ekki nógu vel þá að vinna í því og þá líður okkur betur. Þá þróum við síður með okkur streitu og vanlíðan.

Þetta var kannski svolítill útúrdúr en samt mikilvægt að koma inn á þetta. Þetta er bara gríðarlega mikilvægt og ég þakka fyrir þessa þingsályktunartillögu og tek undir þetta málefni.