Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

almannatryggingar.

217. mál
[13:42]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Þetta frumvarp er lagt fram vegna þess að hinn svokallaði tvöfaldi lás sem er í almannatryggingalögum hefur aldrei virkað. Hann á að virka á þann hátt að lífeyrir almannatrygginga hækki til jafns við verðbólgu og vísitölu neysluverðs eða launaþróun, hvort sem er hærra. Ekki hvort sem er lægra heldur hvort sem er hærra. Ef það er 5% verðbólga og 10% launaþróun þá á lífeyrir almannatrygginga að hækka um 10%. Ef það er 10% verðbólga en 5% launaþróun þá á lífeyrir almannatrygginga einnig að hækka um 10%. Það hefur hins vegar ekki verið raunin þau rúmlega 20 ár, núna að verða 25 ár, sem þessi lög hafa verið í gildi. Raunhækkunin á þessum rúmu 20 árum hefur verið umfram vísitölu neysluverðs en ekki jafn mikil og launaþróun. Það gengur svona sitt á hvað á milli ára hvort launaþróun samkvæmt launavísitölu eða vísitala neysluverðs er hærri og það hefur gengið sitt á hvað hversu mikið lífeyrir almannatrygginga hefur hækkað á sama tíma. Raunbreytingin á lífeyri almannatrygginga er nokkurn veginn mitt á milli, á milli hækkunar verðbólgu og hækkunar launa sem hefur verið mun meiri en vísitöluhækkunin. Það sem vantar upp á er samt dálítið mikið. Það vantar u.þ.b. 60%, þ.e. lífeyrir ætti að vera u.þ.b. 50–60% hærri en hann er núna ef hann hefði fylgt alltaf þessari hæstu tölu, verðbólgu eða launaþróun, sem er merkilegt. Því hef ég lagt til ásamt þó nokkuð mörgum öðrum þingmönnum, mjög langur listi hérna, breytingar á þessu.

Í rauninni er engin skilgreining á launaþróun í lögum um almannatryggingar. Það er bara sagt: launaþróun. Hver á sú launaþróun að vera, við hvað á að miða? Það er ekki nægilega vel skilgreint. Nýlega var lögum um laun starfsmanna ríkisins breytt með tilliti til þeirra launa sem þingmenn fá. Þar er skilgreint hvað launaþróun er og það er það sem ég legg til að verði bætt við í lög um almannatryggingar, skilgreining í lögum um að launaþróun eigi að reiknast á nákvæmlega sama hátt og hækkun á launum þingmanna eða ráðherra er reiknuð, sama reikningsaðferð. Það verður ekki lengur hægt að afsaka sig með því að segja: Heyrðu, launaþróun var hærri en verðbólguþróun en við vitum ekki alveg hvað launaþróun þýðir þannig að við ætlum ekki að hækka lífeyri almannatrygginga um sem nemur launaþróun. Hingað til hefur túlkunin verið sú að fjármálaráðuneytið áætlar launahækkanir fyrir komandi ár í fjárlögum, með tilliti til þeirra kjarasamninga sem eru í gangi o.s.frv. Sú spá hefur ítrekað verið of lág. Það hefur ekki verið leiðrétt eftir á. Í lok árs er ekki horft á það. Við spáðum 4% launahækkun yfir árið en reyndin varð 6% og við ætlum ekki að leiðrétta lífeyri almannatrygginga með tilliti til þeirrar skekkju í spá sem var gerð fyrir árið.

Það hefur hins vegar gerst núna tvö undanfarin ár að lífeyrir almannatrygginga hefur verið leiðréttur með tilliti til vanspár á verðbólguþróun, þ.e. það var spáð ákveðinni verðbólgu í upphafi árs en sú spá var röng í lok árs, hún var of lág, verðbólgan var í raun og veru hærri. Það sem Alþingi hefur gert er að leiðrétta þennan mun, hækka lífeyri almannatrygginga upp í þá tölu sem hún hefði verið við lok árs ef verðbólguspáin hefði verið rétt. Það var spáð 5% verðbólgu og segjum að það hafi verið 300.000 kr. í lífeyri. Það er þá 15.000 kr. hækkun í lok árs en verðbólgan var í rauninni 10% þannig að lífeyrir hefði átt að hækka í 330.000 kr. Eða 390.000, ég er að ruglast aðeins þarna á 45.000 og 90.000 kr. hækkun. Alþingi hefur á undanförnum tveimur árum sem sagt bætt við þessum 45.000 kr. sem munar þarna á milli, sem er mjög gott og blessað, fyrir utan að þarna er launaþróunin mögulega önnur af því að þið munið, það á að vera hærri talan, hvort sem er verðbólguþróun eða launaþróun. Á því ári sem var að líða var verðbólguþróun líklega hærri en launaþróun. Breytingin hefur þá verið rétt en árið 2021 var launaþróun hærri en verðbólguþróun þannig að þar var þingið aftur að hunsa í rauninni þennan tvöfalda lás sem á að vera í lögum um almannatryggingar. Almannatryggingar hækkuðu ekki eins mikið og lögin gera ráð fyrir.

Með þessu frumvarpi legg ég til að launaþróun verði tekin út og í staðinn verði útreikningur samkvæmt Hagstofunni, á nákvæmlega sama hátt og er gert fyrir þingmenn, þannig að það sé algjörlega skýrt. Til viðbótar bæti ég síðan hins vegar við í þessu frumvarpi að það verði tekið tillit til krónutöluhækkana. Þetta er mjög mikilvægt því að þarna erum við að glíma við þann lífeyri sem er hvað lægstu kjörin sem fólk hefur. Ef láglaunastéttir almennt í landinu eru að fá krónutöluhækkanir en lífeyrir almannatrygginga prósentuhækkanir er það óhjákvæmilega mun lægri upphæð. Þannig verður til þessi ákveðna gliðnun milli kjara þeirra sem eru á lífeyri og þeirra sem eru á lægstu launum. Það er þannig kveðið á um að það skuli ekki vera lægra heldur skuli krónutöluhækkanir í kjarasamningum endurspeglaðar í krónutöluhækkunum fyrir bætur almannatrygginga.

Nú mætti alveg fjalla um hvort inn í þetta ætti að taka tillit til launaþróunar á almenna markaðnum líka. Hérna er ég bara að gera ráð fyrir því að þetta sé nákvæmlega eins og hjá þingmönnum og ráðherrum, að það sé tekið tillit til launaþróunar starfsmanna ríkisins, launaþróunar opinberra starfsmanna. Að vissu leyti má segja að þau sem eru á lífeyri almannatrygginga séu einmitt á launum hjá ríkinu og þannig eigi viðmið um laun opinberra starfsmanna að vera viðmiðið. Eins og það er núna er talað um launaþróun á almennum markaði. Þetta er því pínu sjónarmiðsbreyting sem ég legg fram miðað við hvernig það er í núgildandi lögum. Það er alveg að mínu mati frjálst fyrir nefndina að endurmeta þetta, hvort eigi að taka tillit til hvors tveggja eða bara almenna markaðarins en alla vega sé sama reikningsaðferð notuð. Ég leggst með því að þetta sé sama reikningsaðferð og fyrir þingmenn og ráðherra til að það sé samanburðarhæft hvað er þarna í gangi því að það er dálítið tryggt að verið sé að reikna laun þingmanna og ráðherra á réttan hátt, myndi maður halda. Það er ákveðið hagsmunamál sumra hvað það varðar og hefur verið á undanförnum árum. Þá er þeim sem eru á lífeyri samkvæmt almannatryggingum tryggt að þau fylgi því sem þingmenn og ráðherrar fá í launahækkanir hlutfallslega.

Hérna í greinargerð er búið að uppfæra töfluna, þetta er áætlun fyrir stöðu ársins með tilliti til þess hvernig það var leiðrétt í fjárlagafrumvarpi fyrir 2023, ekki kannski nákvæmustu nýjustu upplýsingar en spáin endaði í því að verðbólga var ekki 9,1%, minnir mig, hún endaði aðeins hærri. Á síðasta ári ætti upphæðin vera í réttri mynd.

Mig langaði að minnast aðeins á mál tengt þessu. Í lögum um almannatryggingar er fjallað um alls konar skerðingar fram og til baka og mig langar að vekja athygli þingheims á ákveðnum galla sem er í lögum um almannatryggingar í dag sem virðist vera rosalega erfitt fyrir kerfið að viðurkenna að sé galli. Þetta er smá útúrdúr en þetta skiptir máli fyrir lífeyrinn, sérstaklega ellilífeyri. Nú er það svo að ellilífeyrir eða sem sagt greiðslur úr skyldubundnum starfstengdum lífeyrissjóðum eru laun. Það eru skattskyld laun í rauninni, þú borgar skatt af lífeyrinum sem þú færð frá lífeyrissjóðnum þínum. Sú upphæð sem þú færð frá lífeyrissjóðnum skerðir lífeyrinn sem þú færð frá almannatryggingum. Allt í lagi. En í lögum um almannatryggingar er ákveðið frítekjumark fyrir atvinnutekjur, passið ykkur á því. Þetta eru tæpar 2,6 milljónir á ári, minnir mig, eins og það er. Greiðslur úr lífeyrissjóði eru skattskyldar, þær eru í rauninni frestaðar atvinnutekjur. Þetta eru atvinnutekjur þegar allt kemur til alls og teljast sem tekjur samkvæmt lögum um tekjuskatt. Þetta er staðreynd sem við þurfum að hafa í huga. Lög um almannatryggingar veita síðan undanþágu frá því að telja lífeyrissjóðsgreiðslur sem atvinnutekjur með tilliti til örorkulífeyris en ekki ellilífeyris. Hvað þýðir það? Það þýðir að það ætti ekki að skerða greiðslur úr lífeyrissjóðum, svo lengi sem það eru ekki aðrar atvinnutengdar tekjur, fyrr en eftir 2,6 milljónir í greiðslu þaðan. Það er hins vegar gert.

Þarna er munur á ákveðnu almennu frítekjumarki sem er upp á 300.000 kr. sem virkar fyrir lífeyrissjóðsgreiðslur og síðan á sérstöku frítekjumarki upp á 2,6 milljónir, sem er sagt að sé fyrir atvinnutekjur. Í 16. gr. almannatryggingalaga eru tvær málsgreinar, önnur um örorkulífeyri þar sem er heimild til þess til að undanskilja lífeyrissjóðsgreiðslur frá því að vera taldar sem atvinnutekjur. Síðan er málsgrein um ellilífeyri. Þar vantar þessa undanþágu. Hún er ekki til staðar. En Tryggingastofnun hefur verið að framkvæma skerðingar á lífeyri almannatrygginga eins og það sé heimild til þess að undanskilja lífeyrissjóðsgreiðslur sem atvinnutekjur. Þetta eru dágóðar upphæðir á ári fyrir fólk. Ég tel að þarna sé um ákveðin mistök í lagasetningu að ræða, sem hefur gerst áður í þessum lagabálki og hefur verið dæmt sem svo að það eigi að fylgja því sem segir í lögum. Það voru gerð mistök og vísað í ranga grein fyrir nokkrum árum síðan og það kostaði það að það var engin skerðing í rauninni á ellilífeyri. Það kostaði ríkið á þeim tíma 2,5 milljarða á ári af því að það mátti ekki skerða greiðslur frá Tryggingastofnun. Þetta var dómur, þetta var niðurstaða þrátt fyrir að þetta væru klár mistök í lagasetningu, einfaldlega misvísun í ranga grein. Heimildin til að skerða var ekki til staðar, það var vísað á rangan stað þar sem var ekki þessi heimild, þessi skerðing var ekki leyfð. Þannig að fordæmin eru rosalega skýr. Það sem stendur í lögunum er það sem gildir. Það er ekki nema það sé einhver vafi í lagatextanum að hægt sé að fara kannski í greinargerðina til að fá nánari skýringar á því hvað lögin þýða. En þarna var einmitt ekkert slíkt til staðar. Það er mjög greinilegt í greinargerðinni að ætlunin var að það mætti skerða greiðslur Tryggingastofnunar miðað við lífeyrissjóðsgreiðslur en það rataði einfaldlega ekki inn í lagatextann sjálfan. Þessi galli í greiðslum á lífeyri samkvæmt almannatryggingum, þessi galli með tvöfalda lásinn, hefur samtals gert að verkum að lífeyrisþegar eru langt frá því að vera á lágmarkslaunum miðað við hvernig staðan var áður. Bilið á milli lágmarkslauna og lífeyris samkvæmt almannatryggingum hefur breikkað.

Þá hugsar maður um kröfur t.d. Flokks fólksins um ákveðna lágmarksfjárhæð skatta- og skerðingarlaust. Ef maður uppreiknar lífeyrinn miðað við að það hefði verið farið eftir tvöfalda lásnum þá væri lífeyririnn u.þ.b. sú upphæð sem verið er að segja að sé lágmarkið. Það er dálítið merkilegt. Ef það hefði verið staðið við það sem stóð í lögum þá hefði ekki þurft þessar kröfur um að greiða þetta lágmark sem verið er að biðja um. Það er merkilegt, verð ég að segja, sérstaklega með tilliti til þess hvernig Alþingi tekur síðan þá ákvörðun að bæta upp mismuninn á því sem var spáð um verðbólgu og raunverulegri verðbólgu undanfarin tvö ár. Þar er þingið í rauninni að viðurkenna að röng tekjuáætlun fyrir lífeyri almannatrygginga sé eitthvað sem skuli bæta. Þá er búið að gera það fyrir verðbólguna en ekki búið að gera það fyrir launaþróunina. Það er það sem þetta frumvarp bætir við eða gerir skýrara.