Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

sorgarleyfi .

315. mál
[14:47]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Frú forseti. Á hverju ári verða um 100 börn á Íslandi fyrir því þunga áfalli að missa foreldri. Á árunum 2009–2018 misstu 1.007 börn á Íslandi foreldri samkvæmt tölum Hagstofunnar. Á því tímabili létust 649 foreldrar barna undir 18 ára aldri en þar af voru 448 feður en mæður 201. Um 40% foreldranna létust úr krabbameinum. Ég held að við þekkjum öll, a.m.k. flest, dæmi þessa. Dæmin eru misjafnlega nálægt okkur og við skiljum að ég held öll hversu sár slíkur missir er og hversu þungt það er fyrir eftirlifandi foreldri og nánustu aðstandendur. Það er mikilvægt að eftirlifandi foreldri fái svigrúm til sorgarúrvinnslu og svigrúm til að vera til staðar fyrir barn sitt eða börn eftir andlát makans eða hins foreldrisins. Þær réttarbætur sem hér eru lagðar fram eru lagðar til ekki síst í þessu ljósi, þ.e. hugsaðar með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Forseti. Með þessu frumvarpi er lagt til að þeir foreldrar barna yngri en 18 ára að aldri sem missa maka sinn fái heimild til að taka allt að sex mánaða leyfi frá störfum og greiðslur frá Vinnumálastofnun meðan á því leyfi stendur.

Frumvarpinu er því ætlað að viðurkenna áhrif sorgar á fjölskyldur í kjölfar þess að barn missir foreldri og einstaklingur missir maka frá ungum börnum. Það var stigið stórt skref hér þegar Alþingi samþykkti lög um sorgarleyfi fyrir foreldra sem missa barn. Ég studdi það frumvarp vitaskuld en tók strax til máls þar sem ég benti á að það væri rétt að í kjölfarið myndi Alþingi taka það skref að styðja jafnframt við þau börn sem hafa misst foreldri og þær fjölskyldur. Hér er því lagt til að réttur foreldra barna undir 18 ára aldri sé lagður að jöfnu við þau réttindi sem Alþingi hefur tryggt foreldrum sem missa barn. Það skiptir miklu að styðja eftirlifandi foreldri barna á þann hátt sem lög um sorgarleyfi veita foreldrum sem misst hafa barn sitt. Á sama hátt skiptir auðvitað máli að þau börn sem misst hafa foreldri fái notið þessa stuðnings.

Öllum má vera ljóst hversu þung staða fjölskyldna er þegar foreldri barns fellur frá. Það þarf ekki að fjölyrða um það hversu sár missir það er fyrir barn að missa foreldri sitt. Það þarf ekki heldur að fjölyrða um hversu þungbært það er fyrir það foreldri sem eftir stendur eða það álag sem því fylgir fyrir fjölskylduna í heild sinni. Í ofanálag kemur í mörgum tilvikum til erfiður tekjumissir heimilis og í einhverjum tilvikum fjárhagsáhyggjur samhliða tekjumissinum. Það á auðvitað ekki síst við þar sem foreldrar hafa verið frekar ungir að árum. Það eru að mínu mati engin efni til að bíða með það að veita þessum fjölskyldum þann mikilvæga stuðning sem fólst í þessari lagasetningu í þágu foreldra sem misst hafa barn. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega nefna að þessi lagabreyting kemur börnum þessara fjölskyldna til góða og að sjónarmið barnasáttmálans voru vegvísir við vinnu þessa frumvarps en það voru líka umsagnir frá aðilum á borð við Sorgarmiðstöðina og Krabbameinsfélag Íslands sem vöktu athygli á því þegar frumvarp um sorgarleyfi var lagt fram að það væri mikilvægt að þessi góðu lög næðu til fleiri fjölskyldna, sérstaklega þegar foreldri missti maka frá barni eða börnum. Þetta væri sá hópur syrgjenda sem væri hætta á að hefði ekki tök á því að taka sér veikindaleyfi eftir andlát maka, eins og rakið er í skilmerkilegri umsögn Sorgarmiðstöðvar. Auðvitað er ekki síst staðan sú þegar andlát kemur í kjölfar veikinda að þá er kannski þegar búið að ganga á veikindaréttinn áður en að andlátinu kemur.

Með sorgarleyfi í þessu frumvarpi er átt við leyfi frá launuðum störfum á innlendum vinnumarkaði í kjölfar þess að einstaklingur missir maka sinn sem hann á barn eða börn undir 18 ára aldri með. Sem fyrr segir verða um 100 börn á Íslandi fyrir því á ári hverju að missa foreldri sitt. Frumvarpinu er eins og áður sagði ætlað að rýmka núgildandi lög um sorgarleyfi með þeim hætti að sorgarleyfi og sorgarstyrkur nái einnig til þessara barnafjölskyldna. Sorgarleyfi og sorgarstyrkur eins og það er útfært í frumvarpinu og í þessari greinargerð er í þeim tilvikum þar sem foreldri barns eða maki foreldris hefur látist. Í núgildandi lögum um sorgarleyfi er hugtakið foreldri skilgreint víðtækara en almennt í lögum þannig að foreldri í þeim lögum nær til foreldra, það nær til forsjáraðila og einstaklinga sem hafa gegnt foreldraskyldum gagnvart því barni sem um ræðir 12 mánuði eða lengur. Það er auðvitað gert til þess einmitt að ná utan um það að fjölskylduaðstæður og fjölskylduform eru ólík. Löggjafinn viðurkennir það og tekur tillit til þess og það er líka gert í þessu frumvarpi.

Þessi víðari skilgreining á foreldrahugtakinu í lögum um sorgarleyfi en almennt er á líka við um þessa breytingu sem hér er verið að leggja til. Það er gert ráð fyrir að makamissir eigi við um þau tilvik þegar foreldri í skilningi laganna verður fyrir því að hjúskapar- eða sambúðarmaki andast en jafnframt er lagt til að skilgreining hugtaksins foreldris breytist á þann hátt að aðrir en foreldrar eða forsjáraðilar geti líka talist foreldrar í skilningi laganna ef þeir hafa gegnt foreldraskyldum gagnvart barni 12 mánuði eða lengur fyrir makamissi. Þetta atriði skiptir máli. Ég veit það vegna þess að ég fékk viðbrögð við því þegar þetta frumvarp var lagt fram frá fjölskyldum sem áttu þessa reynslu og vildu koma þessum ábendingum á framfæri. Í frumvarpinu var frá upphafi tekið tillit til þess að fjölskylduformið er vitaskuld ekki alls staðar hið sama, að þótt talað sé um makamissi þá er fókusinn á barninu og nánasta aðstandanda þess og á þennan hátt sé foreldrum veittur þýðingarmikill stuðningur á mjög viðkvæmum tíma í lífi barnsins og fjölskyldunnar og fjárhagsstuðningur til að mæta tekjutapi.

Það er fjallað um greiðslurnar í þessu frumvarpi. Það er miðað við að hámarksgreiðslan verði hin sama og gildir um sorgarleyfi fyrir foreldra sem misst hafa barn, þ.e. að mánaðarleg greiðsla skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna en 600.000 kr. að hámarki. Í frumvarpinu er, eins og ég nefndi hér áðan, líka gert ráð fyrir því að foreldrar utan vinnumarkaðar séu í þessari stöðu eða foreldrar sem eru í minna en 25% starfshlutfalli, þannig að þar er verið að huga að námsmönnum og að þessum hópi sé þá tryggður svokallaður sorgarstyrkur með lágmarksupphæð. Það er miðað við að foreldrar geti nýtt þennan rétt til sorgarleyfis samhliða skertu starfshlutfalli, líka yfir lengra tímabil. Það er lagt til að foreldri verði heimilt að skipta greiðslutímabilinu yfir fleiri tímabil en eitt, þó þannig að greiðslutímabilið geti skemmst varað í hálfan mánuð í senn. Allt miðar þetta að því að geta mætt aðstandendum og foreldri barns í þessari stöðu með því að það sé sveigjanleiki á vinnustað og hægt sé að smíða þetta leyfi eftir aðstæðum og þörfum. Þannig að það er miðað við það að réttindi foreldra í þessum aðstæðum séu að öllu leyti sambærileg réttarstöðu þeirra foreldra sem hafa misst barn og að sorgarleyfi muni þannig fela í sér mánaðarlegar greiðslur yfir ákveðið tímabil. Eins og við vitum þá eru foreldrar í þessari stöðu í dag alfarið háðir því að vinnuveitandi sýni þeim skilning og auðvitað ekki síst því að vinnuveitandi hafi yfirleitt ráðrúm og getu til að veita frí, til að veita sveigjanleika þegar sorgin knýr dyra. Hugsunin er þá sú að með því að tryggja fólki þennan rétt í lögum þá sé þetta svigrúm ekki háð því hver geta vinnuveitandans á hverjum stað fyrir sig er heldur sé það samfélagslegt verkefni að styðja við foreldra í þessum sporum.

Frú forseti. Með þessari löggjöf yrði Ísland fyrst Norðurlanda til að styðja við barnafjölskyldur með þessum hætti. Ég er stolt af því ef svo gæti orðið og er stolt af því að leggja fram þetta frumvarp og held að það sé raunar mjög í takti við þær áherslur sem stjórnvöld hafa boðað um velsæld og hagsmuni barnsins, að það væri mjög í takti við þær áherslur ef þetta frumvarp fengi fram að ganga. Yrði frumvarpið að lögum yrði Ísland fyrst Norðurlanda til að styðja við fjölskyldur með þessum þýðingarmikla hætti þegar sorgin knýr dyra. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það skipti svo miklu að styðja við einstaklinga sem missa maka frá ungum börnum og styðja við þau börn sem missa foreldri. Með því fá foreldrar ungra barna nauðsynlegt svigrúm á mjög erfiðum kafla í þeirra lífi til að styðja við sín börn og fjölskyldu í heild.

Ég vil að lokum segja, frú forseti, að mér finnst að við eigum sem samfélag að taka utan um þessi börn og þessar fjölskyldur og bind vonir við að þetta frumvarp geti fengið framgang hér á Alþingi.